Sjö stórmarkaðir í Bretlandi hafa kært þrettán fiskeldisfyrirtæki fyrir verðsamráð. Þar á meðal SalMar, eiganda Arnarlax á Íslandi. Kærunni er beint til þarlendra samkeppnisyfirvalda.
Fréttamiðillinn Just Food greinir frá þessu.
Markaðirnir sem standa að kærunni eru Aldi, Asda, Morrisons, Marks and Spencer, Ocado, Iceland og The Co-op. Auk SalMar er kærunni meðal annars beint gegn Mowi, Grieg, Lerøy, Bremnes, Cermaq og fleirum.
Í stefnunni segir að meint samkeppnisbrot fiskeldisfyrirtækjanna hafi staðið yfir á árunum 2011 til 2019. Hafa stórmarkaðirnir reiknað sér tap upp á 675 milljónir punda, eða tæpa 118 milljarða króna á umræddu tímabili vegna hins meinta samráðs.
Telja markaðirnir að samráðið hafi náð til allrar keðjunnar, allt frá hráum fisk, frystum, reyktum og yfir í ýmsar unnar laxaafurðir.
Að sögn þeirra er hið meinta verðsamráð brot á breskum samkeppnislögum auk tvíhliða viðskiptasáttmála á milli Bretlands, Evrópusambandsins og EES ríkja.
„Smásölufyrirtæki leitast við að bjóða bestu verðin til neytenda og ef það er grunur um að framleiðendur komi í veg fyrir það þá mun það alltaf hafa afleiðingar,“ sagði Andrew Opie, forstjóri hagsmunasamtaka breskra smásölufyrirtækja, BRC, í yfirlýsingu.
Í frétt Just Food kemur fram að haft hafi verið samband við fiskeldisfyrirtækin en þau neitað að svara spurningum.