fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Einn virtasti eldfjallafræðingur landsins gagnrýnir RÚV – „Hættulegar og villandi myndir“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 6. mars 2024 20:00

Haraldur er ekki ánægður með framsetninguna hjá RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jarðfræðingurinn Haraldur Sigurðsson gagnrýnir framsetningu Ríkisútvarpsins í fréttum um jarðhræringar. Segir hann skýringarmynd sem birt var af kviku úr möttli jarðar kolranga og villandi.

„Hættulegar og villandi myndir. Fjölmiðlar á Íslandi reyna eftir bestu getu að koma vísindalegum upplýsingum áfram til almennings, en mikið af því er villandi eða rangt,“ segir Haraldur á samfélagsmiðlum.

Haraldur er 83 ára að aldri og starfaði lengst af við Háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum. Hann er einn helsti fræðimaður þjóðarinnar í eldfjallafræðum, hefur hlotið riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu og er heiðursdoktor við Háskóla Íslands.

Versta dæmið

Haraldur segir eitt versta dæmið um villandi myndir vera þá sem birtist hjá RÚV nýlega.

„Hún sýnir eldrauða brunaslöngu sem nær frá kjarna jarðar (2900 km dýpi) og upp undir Ísland. Þetta er rangt,“ segir Haraldur.

Bendir hann á að kjarninn sé ekki gerður úr hraunkviku, heldur sé kjarninn járnbráð sem hefur svo háa eðlisþyngd að hún mun aldrei leita upp í gegnum möttulinn.

„Þótt ytri kjarninn sé bráðinn, þá er möttullinn heill, fastur, óbráðinn. Þess vegna berast allar tegundir af jarðskjálftabylgjum í gegnum möttulinn,“ segir Haraldur og heldur áfram að fræða. „Bráð eða hraunkvika verður til þegar efri mörk möttulsins byrja að bráðna á um 90 til 100 km dýpi undir Íslandi. Kvikan verður til vegna þess að þrýstingur lækkar þegar möttullinn mjakast upp á við.“

Trúið ekki öllu

Bergið í möttlinum sé mjög heitt en óbráðið þangað til það mjakast upp á um það bil 100 kílómetra dýpi undir landinu. Efsti hluti möttulsins sé eins og svampur þegar hann byrji að bráðna. Kvikan rísi upp úr þessum svampi. Skorpan bráðni ekki.

„Hvers vegna mjakast möttullinn upp? Að nokkru leyti gerist það vegna þess að jarðskorpuflekarnir færast í sundur. Sem sagt, kvikan myndast ekki vegna vaxandi hita, heldur vegna lækkandi þrýstings,“ segir Haraldur. „Trúið ekki öllu (neinu?) sem þið sjáið í fjölmiðlum.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum