Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stendur nú fyrir umfangsmiklum aðgerðum í umdæminu og utan þess vegna rökstudds gruns um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Aðgerðirnar hófust fyrir hádegi og munu standa yfir fram eftir degi, en í þeim felst meðal annars að ráðist er í húsleitir á fjölmörgum stöðum.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að aðgerðirnar eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu segir í tilkynningunni.
Vísir greinir frá að samkvæmt þeirra heimildum séu aðgerðirnar tengdar fyrirtækjunum Vy-þrif, Pho Víetnam og Wok On, sem eru í eigu Davíðs Viðarssonar.
Mbl.is greinir frá að á sjöunda tug lögreglumanna að lágmarki komi að aðgerðunum sem eru í gangi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Samkvæmt heimildum mbl.is snúa aðgerðirnar að veitingastöðum, gistiheimilum og heimilum fólks.
Um er að ræða stærstu eða með þeim stærstu aðgerðum sem lögreglan hefur staðið í að sögn Elínar Agnesar Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki fæst gefið upp hvort einhver hafi verið handtekinn.
Veitingastöðum Wok On hefur verið lokað í aðgerðunum, sem og gistihúsinu Kastali Guesthouse í miðbæ Reykjavíkur. Fram kemur á heimasíðu Wok On að allir staðir keðjunnar séu lokaðir.