Fasteignasala Sævars Þórs hefur ákveðið að bjóða fasta 1% söluþóknun vegna sölu íbúðarhúsnæðis. Fasteignasalan er systurfyrirtæki lögmannsstofunnar Sævar Þór & Partners. 1% söluþóknun er með því lægsta sem gerist á markaðnum en algeng söluþóknun er í kringum 1,5%.
,,Með því að bjóða lága söluþóknun eða 1% viljum við vega upp á móti ástandinu í samfélaginu. Það er búið að vera mikið af vaxtahækkunum undanfarið sem hefur verið erfitt fyrir fólkið í landinu og ekki síst seljendur og kaupendur á fasteignamarkaði. Við viljum með þessu koma til móts við þá sem eru að selja og kaupa íbúðir,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður og löggiltur fasteignasali. Innifalið í þóknun fasteignasölunnar er myndataka og þjónustugjald fyrir seljanda. Virðisaukaskattur bætist síðan ofan á 1% söluþóknunina eins og eðlilegt er.
Sævar Þór segir aðstæður erfiðar á fasteignamarkaði vegna hins háa vaxtakostnaðar. ,,Það er enn eftirspurn eftir eignum þótt það hafi vissulega kólnað aðeins á markaðnum í þessu árferði,“ segir hann.
Sævar Þór fékk réttindi sem fasteignasali árið 2012. ,,Ég hef í störfum mínum verið að aðstoða umbjóðendur við sölu og kaup á fasteignum og hef því langa reynslu af fasteignamarkaðinum. Það hefur margt breyst á stuttum tíma. Verð á eignum hefur flökt mikið til dæmis leiðréttist fasteignaverð mikið eftir stóra efnahagshrunið 2008 á árunum 2015 til 2016. Svo kom COVID sem hafði gríðarleg áhrif, sérstaklega á sölu atvinnuhúsnæðis sem lækkaði að raunvirði um rúmlega 21%. Verð á atvinnuhúsnæði kom hvað verst út í COVID á meðan verð á íbúðarhúsnæði hækkaði meira á því tímabili.“