Hrólfur sagði að sendingin, tvö reiðhjól með rafbúnaði, hefðu verið stíluð á son hans í Neskaupstað. Hjólakaupmaðurinn breski hafi að vísu bara átt eitt hjól af þeirri gerð sem þeir pöntuðu en brugðist skjótt við og áframsent pöntun til birgja sinna í Kína.
„Eftir þrjá mánuði frá pöntun fórum við að kanna hvar þessi sending væri og því var hringt í breska hjólakaupmanninn og fengum við þær fréttir að ekki hefðu verið liðnar fimm vikur frá því að pöntun var gerð þar til sendingin var komin til Reykjavíkur frá Kína. Það voru tveir mánuðir síðan þessi sending kom til Reykjavíkur og var hann undrandi á því að við hefðum ekki fengið tilkynningu þar um og svo var og um okkur,“ sagði Hrólfur í grein sinni.
„Eftir það sem síðar hefur gerst erum við hættir að vera hissa. Þó tókst einhverjum embættismanni að slæma klónum í þessa sendingu og þar með voru þessi reiðhjól gerð upptæk vegna vöntunar á upprunavottorði. Það er raunar sorglegt að íslenskir embættismenn skuli vera svona vankunnandi í þeim málum sem þeir eiga að þekkja,“ sagði Hrólfur í grein sinni.
Hann segir að sonur hans hafi hringt í kínverska sendiráðið og spurt hvernig hann gæti fengið upprunavottorð vegna reiðhjóla frá Kína. Því hafi verið fljótsvarað á þá leið að upprunavottorð varðandi reiðhjól væru ekki til og hefðu ekki verið til.
„Allar leiðir Samgöngustofu varðandi þetta mál hafa síðan verið á villigötum, en á hvers konar götum skyldu samskipti samgöngustofustjóra og tollstjóra vera? Ekki veit ég en fékk á tilfinninguna að þar væri ekki allt sem skyldi og biðst velvirðingar á þessu áliti sé það rangt. Við feðgar teljum að þessi hjól henti vel hér á okkar vindasama fjallalandi,“ sagði Hrólfur.
Veltir hann fyrir sér allri umræðunni í kringum loftslagsmál og orkuskipti. Á sama tíma og margir viðri áhyggjur sínar af þeim málum sé ekki einu sinni hægt að kaupa sér reiðhjól með rafhjálparafli til að „minnka prumpið í brekkum“ eins og hann segir sjálfur.
Í greininni segir Hrólfur frá því að sonur hans hafi leitað uppi reiðhjólaverslun í Póllandi sem átti sams konar hjól og Samgöngustofa gerði upptæk.
„Hann ákvað að kaupa svona hjól, en vildi fá upprunavottorð með því. Pólski hjólakaupmaðurinn sagði honum það sama og kínverska sendiráðið og breski hjólakaupmaðurinn, sem sé að upprunavottorð eru ekki til með reiðhjólum frekar en garðsláttuvélum, ryksugum og hjólbörum, enda komast þessi hjól ekki nema 25 km á klukkustund.“
Hrólfur segir svo frá því að þegar liðið var á þriðja ár frá upphafi málsins hafi æðstaráð Samgöngustofu staðið upp úr stólnum til að athuga hvort eitthvað væri hæft í málflutningi þeirra feðga. Er skemmst frá því að segja að þar á bæ komust menn að því að þetta væru reiðhjól sem ekki þyrfti að skrá með númerum og þar með þyrfti ekkert upprunavottorð. „Síðan sagði hann sig frá þessu máli og tók þá við æðstaráð tollamála og taldi sá að hentugast væri að farga þessum hjólum.“
Hrólfur segir að eignarrétturinn sé ekki mikilsmetinn af „herrum samgöngu- og tollamála“ en þannig hafi það oft verið þar sem einræði hefur verið lofað að þróast án eftirlits.
„Það fylgir leiðbeiningabæklingur með öllum upplýsingum um þessi hjól og upprunavottorð myndi þar engu við bæta. Veit einhver hver hefur boðvald yfir samgöngu- og tollamálum? Samkvæmt almennum siðareglum myndi ærlegur embættismaður biðjast afsökunar á að hafa tekið eign annars manns til að þjóna duttlungum sínum í þrjú ár. Allar ábyrgðir sem fylgdu þessum hjólum eru löngu fyrir bí, þökk sé Samgöngustofu og/eða tollstjóra. Það er því ljóst að samgöngustofufólk þarf að læra betur sem og hinn hrokafulli tollstjóri, sem telur eigin skinni best borgið með förgun.“