Kona að nafni Bryndís Pétursdóttir, aðstandandi og vinkona manns á áttræðisaldri sem glímir við mikinn heilsubrest, segir hann ekki fá þá þjónustu sem hann þarf í þjónustuíbúð Reykjavíkurborgar við Furugerði 1. Þjónustan hafi nýlega verið skert við manninn sem á erfitt með að halda hægðum og mat niðri.
„Hann þyrfti að komast á hjúkrunarheimili. En það er ekkert laust og hann kemst ekkert,“ segir Bryndís um vin sinn, 76 ára gamlan mann sem býr í Furugerði 1.
Þar eru 76 íbúðir fyrir aldraða sem fá heimaþjónustu í húsinu og aðstoð við þrif og þvotta. Íbúarnir geta fengið aðstoð við böðun og mat.
Bryndís segir vin sinn mjög veikan. Hann sé hrjáður af Parkinson´s veiki, með langvinna lungnateppu, slitgigt, háan blóðþrýsting og ýmis konar magavandræði. Þetta valdi því meðal annars að honum takist ekki alltaf að halda hægðum.
Maðurinn eigi mjög erfitt með gang og sé sídettandi í gólfið, jafn vel þó hann sé með göngugrind. Hann hafi beinbrotnað vegna þessa.
Bryndís segir að hann fái mat og hafi verið með þrif og þvotta einu sinni í viku. Hins vegar sé núna búið að skerða þjónustuna hjá honum. Hann fái þrif tvisvar í mánuði og þvegið af sér þrisvar í mánuði.
Einn daginn hafi hann kastað upp yfir sjálfan sig og á gólfið. Bað hann um að það mesta yrði þrifið en honum sagt að ekki væri hægt að verða við því. Honum hafi verið sagt að hann yrði að bíða til næsta þrifadags. Var ælan á gólfinu í rúma viku.
„Ef það er kvartað yfir einhverju þá er alltaf sama svarið: Þú ert ekkert á neinum sérsamningi hér, þú færð sömu þjónustu og aðrir. En auðvitað þurfa ekki allir sömu þjónustu,“ segir Bryndís. Bendir hún hins vegar á að á vef Reykjavíkurborgar standi að fólk eigi að fá heimastuðning við sitt hæfi.
Hún segir manninn vera nokkuð mikið einan en hann eigi þó son og dóttur sem komi einstaka sinnum til hans að hjálpa. Búið er að reyna að tala við yfirmenn um að hann fái meiri þjónustu en ekkert bifast. „Hann er hræddur um að verða hent út,“ segir Bryndís.
Aðspurð um hvort hún viti hvers vegna þjónustan var skert segist Bryndís ekki vita það. Trúlega sé peningaleysi og manneklu um að kenna.
Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Norðurmiðstöðvar á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir að miðstöðin geti ekki tjáð sig um málefni einstaklinga.
Hann segir stuðninginn í leiguíbúðum eins og Furugerði sambærilegan við þann sem sé veittur hjá heimaþjónustu borgarinnar að viðbættri næturvakt.
„Stuðningsþarfir fólks geta tekið breytingum og því þarf að endurmeta þær reglulega,“ segir Kristinn. „Sumt fólk missir færni með tímanum og þarf þá meiri þjónustu en unnt er að veita í þjónustuíbúð. Þegar ekki er hægt að koma til móts við stuðningsþarfir í þjónustuíbúð fær fólk leiðbeiningar um hvernig er óskað eftir færni- og heilsufarsmati sem er nauðsynlegt svo hægt sé að sækja um hjúkrunarheimili. Þetta ferli getur tekið tíma og því eru alltaf einhverjir einstaklingar sem búa í þjónustuíbúðum sem þyrftu meiri stuðning en hægt er að veita þar.“