Það má teljast mikil mildi að ekki fór verr þegar Teslabifreið lenti í árekstri við hjólreiðamann á rafhjóli á gatnamótum Vatnsendahvarfs og Breiðholtsbrautar. Á myndbandinu má sjá að hjólreiðamaðurinn, sem er hjálmlaus, hendist upp á húdd bifreiðarinnar og fellur þaðan til jarðar. Blessunarlega stendur maðurinn þó strax á fætur og virðist, að minnsta kosti við fyrstu sýn, hafa sloppið vel.
Ekki liggur fyrir hvenær atvikið átti sér stað en myndbandinu var deilt á sameiginlega TikTok-síðu hjónanna Sveins Elíasar Elíssonar og Óskar Norðfjörð.
Í meðfylgjandi færslu, sem Sveinn Elías skrifar, segir hann að hjólreiðamaðurinn hafi haldið því fram að Ósk, sem sat undir stýri Teslunnar, hafi farið yfir gatnamótin á rauðu ljósi. Myndbandið sýni hins vegar fram á að það var ekki rétt.
„Gott að hafa dashcam í Teslunni þegar maður dílar við svona einstaklinga,“ skrifar Sveinn Elías í færslunni.
Hér að neðan má sjá upptökuna sem birt var á TikTok-síðu hjónanna.