fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Íslensk móðir í stórskuld við barnsföður sinn eftir fjársöfnun til veikra barna þeirra – „Við vorum ekki þessir samhentu foreldrar“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 29. febrúar 2024 19:23

Mynd: Getty. Tengist frétt ekki.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef orðið fyrir hræðilegum vonbrigðum með réttarkerfið. Ég ætlaði að berjast fyrir framtíð barnanna minna en sit eftir með særða réttlætiskennd. Ég hef barist við reiðina og skömmina. Ég bauð börnunum upp á óþolandi ástand allt of lengi og ég skammast mín líka gagnvart ykkur sem hjálpuðuð okkur því ég tók þátt í blekkingu. Við vorum ekki þessir samhentu foreldrar sem þið sáuð í blöðunum heldur var ástandið á heimilinu vægast sagt slæmt. Ég tók líka þátt í því að láta líta út eins og barnsfaðir minn hefði misst tekjur út af veikindum drengsins. Sannleikurinn er sá að hann var heldur ekki í fastri vinnu áður en barnið fæddist og tekjur hans í 14 ára sambúð okkar voru minna en 11 milljónir samanlagt. Foreldrar hans hjálpuðu til en við lifðum aðallega á mínum tekjum. Það er vel þekkt að þolendur ofbeldis taka þátt í lyginni en ég finn enn fyrir skömm yfir því,“ segir kona í pistli sem hún hefur birt á samfélagsmiðlum.

Með þessu skrifum sínum setur konan lokapunktinn aftan við sögu sem hefur verið í fjölmiðlum annað slagið undanfarin ár og var sú umfjöllun framan af tengd við fjársöfnun til styrktar tveimur börnum konunnar og sambýlismanns hennar. Konan og maðurinn voru í óskráðri sambúð í 14 ár en þau eiga tvö börn. Yngra barnið er drengur sem fæddur er árið 2016. Hann greindist með krabbamein er hann var aðeins 11 mánaða gamall og hefur þurft að undirgangast viðamiklar læknismeðferðir, meðal annar þrisvar í Boston í Bandaríkjunum á árinu 2022, og samtals sjö ferðir þangað. Dóttir hjónanna er fædd árið 2009 og árið 2021 greindist hún einnig með góðkynja æxli. Dóttirin læknaðist og konan tilkynnir í áðurnefndum pistli að syninum virðist nú vera batnað líka eftir langa þrautagöngu.

Mikið fé safnaðist

Í frétt sem DV birti byrjun nóvember árið 2023 komu fram nokkuð sláandi upplýsingar: Afar mikið fé hafði safnast í fjársöfnunina sem haldin var vegna barnanna en hjónin höfðu slitið samvistum og deildu hart um söfnunarféð. Þau hafa einnig deilt um forræði barnanna en konan sakar manninn um ofbeldi sem hafi leitt til þess að hún þurfti að flýja með börnin af heimilinu og búa þeim heimili annars staðar með tilheyrandi kostnaði. Einnig hefur hún ítrekað lýst því sem kemur fram hér að ofan, að maðurinn hafi haft litlar sem engar tekjur á sambúðartíma þeirra og hafi verið á hennar framfæri. Maðurinn hefur aftur á móti harðneitað því að hafa beitt konuna ofbeldi, hann viðurkennir að hafa haft lágar tekjur en bendir á ríkulegur fjárstuðningur foreldra hans hafi komið fjölskyldunni vel. Konan telur þann stuðning hafa dugað skammt.

Fólkið gekkst undir fjárskipti og vegna ósamskomulags fóru skiptin fyrir dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði manninum að mjög miklu leyti í hag og Landsréttur staðfesti þann úrskurð að mestu leyti. Deilan er nokkuð flókin en málavextir eru raktir í áðurnefndri frétt DV og ennfrekar í úrskurðum Héraðsdóms og Landsréttar sem eru birtir hér.

Megindeilan var um sjálft söfnunarféð en sá reikningur stóð í rúmum milljónum króna í desember árið 2021. Maðurinn krafðist helmings af þessu fé, en konan taldi það fráleitt þar sem ekki var um sérstakan söfnunarreikning að ræða heldur hennar eigin reikning sem ýmsir aðrir fjármunir runnu í gegnum, þar á meðal launin hennar. Um þetta skrifar konan núna:

„Það hafði söfnunarféð verið lagt inn á minn bankareikning og ég hafði ekki haft hugsun á því að leggja það inn á sérreikning. Við höfðum keypt nokkra dýra hluti til heimilisins í gegnum tíðina fyrir mínar tekjur enda hafði hann ekki nóg fyrir meiru en vasapening. Nú hélt maðurinn því fram að hlutirnir hefðu verið keyptir fyrir söfnunarfé og vildi fá helminginn af þeim, líka þeim sem voru keyptir áður en söfnun hófst. Svo vildi hann líka fá helminginn af peningunum sem hann sagði að væri búið að eyða í þessa muni. Ég sagði að þið sem gáfuð í söfnunina hefðuð viljað styrkja börnin. Maðurinn sagði að söfnuninni hefði verið ætlað að bæta upp fyrir hans tekjuleysi. Dómarinn taldi að söfnunarféð kæmi börnunum ekki við og dæmdi honum helminginn af öllum peningum sem höfðu verið á mínum bankareikningi þegar ég fór frá honum. Það var ekki bara söfnunarféð heldur líka launin mín. Ég fékk hins vegar ekkert af hans bankareikningum. Einnig hafði ég á okkar sambúðartíma lagt tæpar 15 milljónir inn á hans bankareikning til að borga af íbúðarláninu.“

Einnig víkur hún að íbúð sem þau áttu saman og deildu um eignarhald á við skiptin:

„Við áttum saman íbúð. Ég var skráð 30% eigandi. Ég vildi fá íbúðina alla dæmda mér enda hafði ég aflað 84% heimilistekna á sambúðartímanum og gat sannað það. Hann vildi fá alla íbúðina af því að hann og foreldrar hans höfðu lagt út fyrir útborgun. Hann hafði líka séð um að greiða af lánum og flesta reikninga. Þegar hann var spurður hvernig hann hefði getað borgað reikninga með svona lágar tekjur sagði hann að hann hefði átt sparifé, fengið styrki frá foreldrum og að eitthvað hefði verið greitt af söfnunarfénu. Spariféð, sem ég hafði ekki vitað um, var enn óhreyft. Styrkir frá foreldrum hans voru um 6 milljónir, sem dugði auðvitað ekkert til að bæta upp fyrir hans tekjuleysi. Söfnunarféð var þannig, að hans sögn, bæði notað til að greiða reikninga og heimilisbúnað en á sama tíma taldi hann söfnunarféð einnig vera óskert.

 Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að þótt tekjurnar kæmu ekki fram á skattframtölum hefði hann samt borgað af lánunum en það kemur ekki skýrt fram hvort dómarinn taldi sig þá vera að skipta þýfi. Sannleikurinn er sá að hann hafði aldrei nógu mörg eða stór verkefni til að það næði lágmarkslaunum. En dómarinn hefur líklega ekki skoðað gögnin. Þinglýst eignarhlutföll stóðu og ég var dæmd til að greiða honum 2,7 milljónir í málskostnað.

 Í Landsrétti fékk ég ofurlitla leiðréttingu því þar var ég talin eiga rétt á 2,3 milljónum af reikningi sem var skráður á hann og ég hafði lagt 5 milljónir inn á.“

 Skuldar manninum 9 milljónir og segir að börnin missi heimili sitt

 Konan segir að staðan sé þannig núna að hún skuldi manninum 9 milljónir króna. Hann hefur keypt hlut hennar í sameiginlegri íbúð þeirra og hún hefur greitt 7 milljónir í málskostnað vegna réttarhaldanna. Hún segist ekki eiga til þessar 9 milljónir og sjái ekki önnur ráð en að selja íbúðina sem hún keypti að hluta fyrir söfnunarféð. Hún fagnar bata sonar síns og segir:

„Þetta hefur verið langt stríð en nú sér fyrir endann á því. Ég verð líklega blönk og í óöruggu húsnæði í nokkur ár en við stöndum það af okkur, ég og börnin mín, eins og allt annað. Það sem ég vil núna er að fólkið í landinu viti hvað réttarkerfið okkar er gallað og að alþingismenn setji lög sem skylda dómara til að lesa gögn í málum áður en þeir dæma þau. Ykkur öllum sem studduð okkur þakka ég frá hjartans innstu rótum.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest

Verð á matvöru hækkar hratt – Hér hefur það þó hækkað mest
Fréttir
Í gær

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“

Helgarferð innanlands eða erlendis? – „43.000 ódýrara fyrir okkur að fljúga til London“