Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands vill komast að því hver það var sem henti því sem er talið hafa verið klakastykki eða snjóbolti í bifreið Diljár Mist Einarsdóttur alþingismanns og veittist í kjölfarið að henni með orðum.
Diljá varð nýlega fyrir því að óþekktur karlmaður henti þessu í bifreið hennar þegar hún var á leið úr bílakjallara Alþingishússins og hrópaði í kjölfarið ókvæðisorðum að henni. Átti þetta sér stað um svipað leyti og mótmæli fóru fram á Austurvelli vegna stöðu Palestínumanna.
Hannes Hólmsteinn spyr í færslunni:
„Hver var karlmaðurinn, sem grýtti bíl Diljáar Mistar 12. febrúar við Alþingishúsið og hreytti í hana ókvæðisorðum? Veit einhver, hver þetta var?“
Hannes er spurður í athugasemd hvort það breyti einhverju og hvort viðkomandi sjái ekki eftir framkomu sinni.
Hannes svarar því á eftirfarandi hátt:
„Hvar hefur það komið fram? Hefur hann beðist afsökunar? Og það, sem meira er: Hefur félagið Ísland-Palestína beðist afsökunar?“
Hannes segist vera að spyrja vegna þess að hann sé að skrifa ritgerð um málið:
„Mér finnst rétt að segja frá öllu, sem máli skiptir.“
Hannes gerir ekki nánari grein fyrir því í færslunni hvaða fræðilegu nálgun hann ætlar að beita í rannsókn sinni á þessu tiltæki hins óþekkta karlmanns.