Klaudia Borysowska íbúi í Reykjanesbæ greinir frá því í Facebook-hópnum Reykjanesbær-Gerum góðan bæ betri að um miðnættið í gærkvöldi hafi hún séð hóp unglinga gera tilraun til að brjótast inn í bíl hennar og eiginmanns síns en bíllinn stóð við heimili þeirra. Þórólfur Júlían Dagsson sem skrifar athugasemd við færsluna telur ekki ólíklegt að um sé að ræða sama hóp og brotist hafi inn í húsbíl hans, sem geymdur er í bænum, í þrjú skipti með þeim afleiðingum að hann sé nánast ónýtur. Segir Þórólfur lögregluna hafa sagt honum að hefja sína eigin rannsókn.
Klaudia veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna hennar. Í færslunni segir hún að eiginmaður hennar hafi farið út og rætt við unglingana til að leiða þeim fyrir sjónir að athæfi þeirra væri engan veginn ásættanlegt. Hafi hann talið líklegt eftir samtalið að unglingarnir væru undir áhrifum einhverja efna.
Hjónin kölluðu til lögreglu en þegar hún kom á vettvang var hópurinn farinn. Klaudia sagði í samtali við DV að lögreglumenn hafi ekið um hverfið en ekki fundið unglingana.
Eigandi húsbílsins, Þórólfur Júlían Dagsson, sem skrifar athugasemdina telur eins og áður segir ekki ólíklegt að þarna sé á ferð sami hópur og brotist hafi þrisvar inn í húsbíl hans. Þórólfur segir í athugasemdinni að lögreglan hafi ekkert gert til að rannsaka hin ítrekuðu innbrot en láti hann vita ef það sjáist að hurðin á húsbílnum sé opin. Nú sé húsbíllinn nánast ónýtur og þá virðist hópurinn vera farinn að herja á aðra bíla. Segir Þórólfur í lok athugasemdarinnar að ef lögreglan myndi vinna vinnuna sína væri ekki verið að ala upp glæpamenn.
Eins og DV greindi frá á síðasta ári fékk Þórólfur hvergi húsnæði þrátt fyrir að vera með eigin rekstur og tekjur þar með. Hann greip þá til þess ráðs að búa í húsbílnum, sem lagt var nærri Víkingaheimum í Reykjanesbæ, um nokkurra mánaða skeið.
Í samtali við DV fyrr í dag sagði Þórólfur að staða hans hafi nú batnað hvað varðar húsnæðismálin og hann sé fluttur í húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en húsbíllinn sé á geymslusvæði nærri Stapaskóla í Reykjanesbæ.
Hann segir að lögreglan hafi sagt honum að taka myndir af verksummerkjum eftir hin ítrekuðu innbrot í húsbílinn og senda þær í gegnum vefsvæðið Island.is.
Þórólfur segist hafa orðið þó nokkuð undrandi á þessum tilmælum lögreglunnar:
„Ég er ekki rannsóknarlögreglumaður.“
Þórólfur segir að lögreglan hafi tjáð honum að mál hans myndi fara neðst í bunkann hjá henni. Hann benti lögreglunni á að öryggismyndavél væri beint frá Stapaskóla að geymslusvæðinu og þar ætti mögulega að sjást hvaða einstaklingar hefðu verið að verki. Lögreglan hafi þá sagt honum að óska eftir því sjálfur að fá að sjá upptökur úr myndavélinni. Hann hafi gert það en verið neitað um aðgang að þeim. Lögreglan hafi þá loks komið og skoðað upptökurnar en niðurstaðan hafi verið sú að þær hafi verið of óskýrar til að hægt væri að bera kennsl á einstaklingana sem brutust inn í húsbílinn.
Þórólfur tjáði DV að þriðja innbrotið í húsbílinn hefði verið framið fyrir nokkrum dögum. Þá hefði lögreglan hringt í hann og sagt að tilkynning hefði borist um að merki væru um innbrot og beint því til hans að fara sjálfur á vettvang. Hann hafi gert það, ásamt bróður sínum, og þegar þeir hafi komið á staðinn hafi hann séð hóp unglinga labba frá húsbílnum að strætóskýli þar skammt frá.
Þórólfur segist hafa rætt við hópinn og einn drengur sérstaklega hafi verið með stæla. Hópurinn hafi neitað öllu og hann sem almennur borgari ekki í neinni aðstöðu til hefta för hópsins þar sem unglingarnir hafi verið að bíða eftir strætó sem hafi komið stuttu seinna:
„Ég fer ekki að snúa börn niður úti á götu,“ segir Þórólfur.
Hann segir að unglingarnir í hópnum hafi margir hverjir sýnt augljós merki um hræðslu þegar hann ræddi við þá um innbrotið og því komið sér beint í strætisvagninn þegar hann kom.
Þórólfur segist hafa hringt í lögregluna með þær upplýsingar að hann hefði séð þennan unglingahóp koma frá húsbílnum en hún hafi ekki viljað koma á vettvang þar sem aðilinn sem tilkynnti um innbrotið hafði ekki séð hópinn koma frá bílnum.
Þórólfur er bersýnilega ósáttur með lítil viðbrögð lögreglu vegna málsins. Hann segir ekki koma á óvart að svo virðist sem að tíðni innbrota fari vaxandi.
Hann segir að á hans yngri árum hafi verið tekið harðar á svona uppátækjum hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann muni dæmi þess að brotist hafi verið inn í skúra í görðum og lögreglan þegar komið á vettvang og tekið slík mál föstum tökum. Nú sé öldin önnur og slík mál virðist ekki hafa neinar afleiðingar fyrir gerendur.
Þórólfur segir að í umræðu um þjófnaði og innbrot sé fullorðnum útlendingum alltaf kennt um en horft framhjá því að börn og unglingar standi líka í slíku:
„Það verður að hugsa eitthvað um framtíðina,“ segir Þórólfur.
Hann veltir fyrir sér á hvaða stað samfélagið sé komið þegar ítrekuð innbrot og skemmdarverk séu liðin.
Þórólfur segir að hópurinn sem braust inn í bíl hans hafi unnið miklar skemmdir á honum og hann því sem næst ónýtur. Helsta skemmdin sé sú að fótstigið fyrir kúplinguna hafi verið brotið og þess vegna sé húsbíllinn óökufær.
Hann segir húsbílinn ekki kaskó-tryggðan og því þurfi að ná hinum seku svo tjónið fáist bætt.
Þórólfur segist ekki ætla að standa í frekari rannsóknum sjálfur vegna málsins. Hann segir tíma til kominn að lögreglan vinni sína vinnu. Skattgreiðendur eigi ekki að þurfa að rannsaka það sjálfir þegar brotist sé inn í eigur þeirra og þær skemmdar. Lögreglan verði að taka harðar á svona málum:
„Þetta er ekki í lagi“, sagði Þórólfur að lokum.