Erlendur leigubílstjóri var í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun á farþega, ungri konu. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna en Katrín Hilmarsdóttir, saksóknari hjá Embætti héraðssaksóknara, staðfestir þessar upplýsingar í svari við fyrirspurn DV.
Atvikið átti sér stað þann 25. september árið 2022. Þolandi mannsins var ung kona sem hann ók frá miðborg Reykjavíkur til Reykjanesbæjar. Í ákæru héraðssaksóknara sem birt var manninum á síðasta ári segir orðrétt:
„…fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. september 2022, í leigubifreiðinni […], sem ákærði ók frá miðborg Reykjavíkur til Reykjanesbæjar, án samþykkis og með því að beita ólögmætri nauðung, haft önnur kynferðismök við A, kennitala […], sem var farþegi í bifreiðinni, en ákærði kyssti A nokkrum sinnum á munninn, þuklaði á brjóstum hennar innan[1]og utanklæða, þuklaði á kynfærum hennar utanklæða og nuddaði kynfæri hennar innanklæða.“
DV mun fjalla nánar um málið síðar eftir að dómur hefur verið birtur.
Mikil og hörð umræða hefur geisað í samfélaginu um framferði sumra leigubílstjóra eftir að fréttir bárust af því að leigubílstjóri hefði nýlega verið kærður og sakaður um að hafa nauðgað ungum farþega sínum í samverknaði við annan mann. Deilt hefur verið á lagabreytingu um leigubílaakstur sem felur í sér að leigubílstjórar þurfa ekki að vera skráðir á starfandi leigubílastöð til að fá starfsleyfi. Sjá nánar hér. Tekið skal fram að þessi lagabreyting hafði ekki átt sér stað þegar sá glæpur sem hér um ræðir var framinn.