Kristín vísar í skrif sem birtust á síðum 16 og 17 í sunnudagsblaðinu þar sem skrifað var um sofandahátt íslenskra stjórnvalda í flóttamannamálum. Þau hefðu jafnvel látið yfirstjórn og eftirlit í hendurnar á „stjórnsömu en í raun umboðslausu ákafafólki“ sem ætti ekki að koma nálægt svona viðkvæmum málum.
„Margur hefur orðið meira en hugsandi yfir framgöngu áður virtra samtaka, eins og Rauða krossins, sem á sér mikla sögu og lengi naut verðskuldaðrar virðingar, frá atbeina sínum á stríðssvæðum við hjálp og björgun á löskuðu fólki og særðu, sem hvergi átti höfði að halla. En hér heima virðast þessi samtök illa hafa breyst og hafa nú á sínum snærum fjölda lögfræðinga, á háum launum, við að þvælast fyrir og að gera stjórnvöldum landsins erfitt fyrir að stemma stigu við flóttamannaóreiðunni, sem komin er í fullkomnar ógöngur.“
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir Kristín að þessi staðhæfing sem birtist hér að framan eigi ekki við rök að styðjast. Ekkert lögfræðingateymi sé hjá Rauða krossi Íslands.
„Rauði krossinn á Íslandi rak talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á árunum 2014-2022. Innanríkisráðuneytið, sem síðar varð dómsmálaráðuneytið, fól félaginu þetta verkefni á sínum tíma með samningi um að sinna þessu hlutverki. Félagið réð til sín sérfræðinga sem voru hæfir til að sinna störfum í samræmi við kröfur samningsins, þar með talda lögfræðinga sem fengu greidd þau laun sem rúmuðust innan samnings,“ segir Kristín í grein sinni.
Hún bætir við að talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi það hlutverk að gæta réttinda skjólstæðinga sinna gagnvart stjórnvöldum og kveðið sé á um slíkt hlutverk í alþjóðlegum sáttmálum.
„Það var ákvörðun stjórnvalda að færa þessa þjónustu á einn stað en hafa hana ekki hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Þessi ákvörðun var í senn tekin til að draga úr kostnaði og bæta þjónustu,“ segir hún.
Kristín bendir svo á að í lok árs 2021 hafi ráðuneytið tekið þá ákvörðun að endurnýja samninginn ekki og lagðist þjónustan af á vormánuðum 2022.
„Á sama tíma luku lögfræðingarnir störfum hjá Rauða krossinum og enginn lögfræðingur starfar að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd eða flóttafólks hjá félaginu í dag. Skrif Morgunblaðsins eru því tilhæfulaus með öllu. Rauði krossinn á Íslandi nýtur mikils traust og velvilja í samfélaginu og hefur gert í 100 ár. Erfitt er að skilja hvers vegna Morgunblaðið kýs að beita ósannindum til að reyna að sverta ímynd félagsins.“