fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Langalangamma Elliða var dæmd til dauða

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024 12:30

Elliði Vignisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss rekur sögu langalangömmu sinnar, Guðrúnar Þórðardóttur, í pistli á vefsíðu sinni. Guðrún fékk dauðadóm 18 ára gömul árið 1857 fyrir það að eignast barn sem var getið af fósturföður hennar. Dómnum var aldrei fullnægt. Frá Guðrúnu eru komnir 1886 afkomendur og eru 1783 þeirra á líf. „Hvorki ég né þau hefðum nokkurn tímann orðið til hefði dómnum yfir langalangömmu verið framfylgt.“

Alin upp í sárafátækt 

Guðrún var einkabarn foreldra, fædd í Götu í Vestmannaeyjum árið 1839, og alin upp við sárafátækt. „Sjálfsagt hefur fátæktin og þurrbúðarhokrið í Eyjum orðið til þess að Guðríður og Þórður freistuðu gæfunnar á meginlandinu og fluttust að Hallgeirshjáleigu í Austur-Landeyjum. Lítið varð þó úr þeirri gæfu því Þórður drukknaði við róðra 1851. Þar með voru örlög þess búskapar ráðin. Heimilið var brotið upp og mæðgurnar urðu viðskila þar sem Guðríður réði sig sem ráðskonu að Húsgarði á Landi en Guðrún, þá 12 ára, var gerð að vinnukonu á öðrum bæ,“ segir Elliði.

Skrif sín um langalangömmu sína byggir Elliði á heimildum úr bókinni „Konur fyrir rétti“, ritinu Blik (1958), grúski á Íslendingabók „og síðast en ekki síst spjalli við móður mína sem er flestu fólki betur að sér um mál sem þessi og svo margt annað.“

„Þrátt fyrir ítrekaða leit fann ég ekki mynd af henni langalangömmu en þeim mun fleiri af langalangafa og börnum þeirra. Hún gæti allt eins hafa litið svona út, falleg eins og konurnar almennt eru í þessum ættlegg.“

Eignaðist 18 ára barn með fósturföður sínum

Innan nokkurra mánaða giftist Guðríður ekklinum á Húsgarði, Sigurði Ólafssyni og gat hún þannig fengið dóttur sína Guðrúnu til sín.
Árið 1857 eignaðist Guðrún, son sem fékk nafnið Friðrik, barnsfaðirinn var Sigurður Ólafsson, fósturfaðir hennar. „Enga tilraun gerðu þau til að leyna faðerninu og nánast er öruggt að hvorugt þeirra hefur gert sér grein fyrir því hversu alvarleg viðurlögin væru. Dauðadómur.“

„Mér var ókunnugt um hversu hart straff lögin leggja við barneign með stjúpföður. Hvorki hefur hann hrætt mig eða brúkað hótanir við mig til þessa,“ sagði Guðrún fyrir dómi.

Segist Elliði verða hugsað til þess að „hafi fósturfaðir hennar hótað henni og þvingað til samfara gæti hann þá ekki eins hafa hótað henni til að bera ljúgvitni? Á móti kemur að sjálfur færðist Sigurður aldrei undan og dró aldrei fjöður yfir sinn hluta. Aldrei gerði hann tilraun til að draga úr sínum hluta eða neita fyrir faðernið.“

Segir Elliði alveg ljóst að mikil aðstöðumunur var milli Guðrúnar og Sigurðar. „Stúlkan var fósturföður sínum félagslega undirgefin, hann þar að auki húsbóndi hennar og átti í samræmi við það að vera siðferðislegur leiðtogi hennar og skjól gegn illu. Hún var ung og óreynd og hafði nýverið misst föður sinn og send í fóstur til vandalausra. Hann var reyndur maður og ráðsettur. Ekkert af þessu varð henni þó til neinna málsbóta. Hún skyldi gjalda.“

Bæði dæmd til dauða

Dauðadómur féll í íslenskum Landsrétti árið 1857 og hann var svo staðfestur í hæstarétti í Kaupmannahöfn áið 1858. Guðrún og Sigurður voru bæði dæmd til dauða.

„Dómnum var aldrei fullnægt. Ef til vill bærðist efi um réttlæti dómsins einhversstaðar. Ef til vill var um að kenna slælegum vinnubrögðum íslenskra embættismanna. Ef til vill gripu æðri máttarvöld inn í til að tryggja mér og hinum 1885 einstaklingunum sem frá henni eru komin tilveru hér á jörð. Seinasta atriðið verður þó að teljast ólíklegast enda hér sagt til gamans,“ segir Elliði.

„Magnað hversu stutt það er síðan dauðadómur var felldur yfir barni sem eignaðist barn með fósturföður sínum. Einungis þrír ættliðir liggja milli mín og langalangömmu.“

Giftist Eyjamanni og eignaðist sjö börn

Afleiðingin varð þó sú að Guðrún varð brottræk af heimili móður sinnar og Sigurðar, en hann hlaut enga refsingu heldur. Friðrik sonur þeirra ólst upp hjá föður sínum og Guðríði. Guðrún flutti aftur til Vestmannaeyja og giftist stuttu síðar Jóni Vigfússyni, bónda í Túni við Kirkjubæi. Saman eignuðust þau sjö börn.

„Svo virðist sem almættið hafi viljað bæta langalangömmu harðræðið sem hún hafði orðið að upplifa. Fátæktina, föðurmissirinn, barneignina með fósturföðurnum, fráleiddan dauðadóminn, aðskilnaðinn við barn sitt og allt hitt. Samvistum þeirra Jóns og Guðrúnar er lýst sem einlægum, fallegum og innilegum.“

Guðrún lést 27. ágúst 1890, aðeins 51 árs að aldri. Segir Elliði séra Oddgeir Guðmundsson hafa flutt einkar hlýja og hjartnæma húskveðju við kistu langalangömmu. „Þar jós hann lofi um bæði hana og Jón, langalangafa. Í orðum sínum sló hann streng sem sýnir að þrátt fyrir harðræðið hafi hún litið sátt yfir farinn veg og það sem hún skildi eftir. Þessi orð snerta mann óneitanlega,“ segir Elliði.

„Hin framliðna var einnig að því leyti lánsmaður, að guð hafði gefið henni mannvænleg og efnileg börn. Og hver er gæfusamur, ég vil segja ríkur, ef ekki sá sem á banasænginni getur glatt sig við þá vissu að eftir hann lifa góð og efnileg börn, foreldrum til sóma og föðurlandinu til uppbyggingar, og þessa von hafði hún sem hér liggur liðið lík.“” – Úr húskveðju séra Oddgeirs, 1890.

Lesa má pistil Elliða í heild sinni hér.

Síðasta aftakan á íslandi árið 1830

Þau síðustu sem voru tekin af lífi hér voru Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson sem tekin voru af lífi fyrir morðið á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði þann 14. mars 1828. Auður og Friðrik voru hálshöggvin í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu 12. janúar 1830.
Eftir það var fólk enn dæmt til dauða á Íslandi en í hvert sinn mildaði konungur dóminn. Dauðarefsing var alfarið afnumin úr íslenskum lögum árið 1928.

Júl­í­ana Silva Jóns­dótt­ir, sem myrti bróður sinn árið 1913 var síð­ust allra dæmd til dauða á Íslandi, en refs­ingu hennar var síðar breytt í fang­els­is­vist. Júlíana lést í júní árið 1931. Fjallað var um mál hennar í Sönnum íslenskum sakamálum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur