fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Fyrrum framkvæmdastjóri Píeta segir þörf á löggjöf um frjáls félagasamtök – „Syngja oft hin fínustu félög sitt síðasta eða missa sjarmann“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024 15:30

Kristín Ólafsdóttir Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalfundur Píeta er framundan og auglýsa samtökin nú eftir fimmta framkvæmdastjóranum frá árinu 2018. Fyrrum framkvæmdastjóri félagsins segir frjáls félagasamtök oft byrja sem grasrótarsamtök þar sem menn láti sig málefnin varða persónulega, en við taki einstaklingar sem upplifa stjórnarsetu sem einhverskonar stöðutákn og sér til hagsbóta. 

Kristín Ólafsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna fer yfir frjáls félagasamtök, rekstur þeirra og fleira í færslu á Facebook-síðu sinni. Kristín tók við sem framkvæmdastjóri Píeta í byrjun árs 2019 og gegndi starfinu í þrjú ár. Kristín er með meistaragráðu í mannréttindalögfræði og BS gráðu í viðskiptafræði. Hún býr yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu og frá félagasamtökum.

„Félagasamtök. Rekstur allskonar úrræða, fræðsla, forvarnir, tekin ábyrgð á þeim sem hafa ekki bolmagn til að bera hana sjálf, heimilisleysi, geðvandi, fíkn. Heitustu málin í dag. Og á þeim hef ég sterka skoðun. Ábyrgðin er mikil og hún er okkar allra,“ segir Kristín um stjórnir félagasamtaka.

Segir Kristín frjáls félagasamtök og góðgerðarstarf vera grasrótina. „Og grasrótin er aflið. Merkilegt, nauðsynlegt, fallegt og dásamlegt að sjá einstaklingsframtakið til handa þeim sem þurfa aðstoð sem samfélagið (ríkið og sveitafélög) getur ekki veitt eða vill ekki veita. Svo fallegt og þarft. En í mörgum tilfellum er þetta bara algjört, massa klúður sé grafað dýpra.“

Kristín segir að nær ógjörningur sé að finna marktækt yfirlit yfir fjölda félagasamtaka á Íslandi, það er á aðgreindan máta, til dæmis þeirra sem eru óhagnaðardrifin og eru í rekstri sem veita (oft sjálfsagða) þjónustu frá til dæmis áhugamannafélagsskap svo sem kórum og  íþróttafélögum.

„Enginn greinanlegur munur virðist gerður á félögum sem veita jafnvel kostnaðarsama þjónustu og halda úti dýrri starfsemi með háan launakostnað og áhugafélaga með enga eða litla starfsemi fyrir utan mögulegt félagsstarf.

Upplýsingar eru sem áður sagði erfitt að ráða í en í fyrrnefndum flokki má finna lífsnauðsynleg samtök. Launakostnaður er oft hár, velta samtakanna hleypur á tugum, eða hundruðum milljóna, framlög frá einstaklingum, ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum er það sem heldur þessu gangandi. Eiga þetta. Við, fólkið í landinu.“

Fer Kristín næst yfir að stór munur er á þessum samtökum hvað viðkemur daglegum rekstri. „Sum veita þjónustu sem kostar einstaklinginn beint (afla tekna), önnur eru á fjárlögum, sum að hluta, önnur alfarið, sum rukka félagsgjald, önnur ekki og svo framvegis. Mörg eru með mánaðarlega styrktaraðila sem oft hefur verið aflað í gegnum úthringifélög sem taka sinn hlut, sirka sjöfalt mánaðargjald hvers áskrifanda. Hinn almenni styrktaraðili veit ekki af því. Það kostar jú að búa til peninga…. En það er önnur saga (í stuttu máli, þegar það er hringt í þig og þú beðin um að styrkja félög er það oft á vegum fyrirtækis sem tekur margfeldið 7 í þóknun. Veljir þú að styrkja um 1000 krónur á mánuði í ár þá fær fyrirtækið 7000 krónur fyrst frá þér fyrir þetta. Semsagt einfalda leiðin, þú segir nei takk við svona símtölum en hugnist þér málstaðurinn þá hringir þú beint í félagið og færð að leggja inn á þau beint). „

Félagasamtök eru samfélaginu mikilvæg

Kristín segir mikilvægi félagasamtaka og einstaklingsframlagsins í samfélaginu okkar þó ekki leynast engum og staða þeirra því óumdeild. Á undanförnum árum hafi þó mikil breyting á hlutverki, umfangi og rekstri frjálsra félagasamtaka, oft góðgerðarstarfsemi einhverskonar en á sama tíma hefur þróun laga í málaflokknum orðið lítil sem engin. 

„Gæti verið að annað væri upp á teningnum væri virkilegur einstaklingsgróði mögulegur þarna?

En aftur að byrjuninni. Félagasamtök sem vinna að heilbrigðis- og samfélagslegri þjónustu verða oftar en ekki til út af neyð, reiði, ótta, vonbrigðum, áföllum, harmleikjum. Sorg. Hvernig svona verður svo til virðist vera svipuð saga hvar sem drepið er niður. Nokkrir aðilar sem hafa upplifað og tekist á við málefnið taka sig saman og stofna félag. Gera kraftaverk, oft við eldhúsborðið, allur kostnaður fer úr eigin vasa. Svo verða ætíð, að því er virðist án undantekninga, átök innanbúðar, fólk kvarnast úr á vaxtaskeiðinu. Alltaf er einhver sem segir sér hafa verið bolað út, jafnvel upphafsmanneskjan sjálf, og þetta fólk má svo oftar en ekki heyra minnst á félagið sem þau áttu þátt í að stofna eða leiða án þess að fá óbragð í munninn.“

Stjórnarmaður vegna frændhygli

Kristín segir að oft ráði frændhyglin þegar kemur að stjórnarmeðlimum. „En það er þegar Sigga frænka er fengin í stjórn því hún vann einu sinni á spítala og óþægilega Magga er ýtt út af borðinu því hann er of fastur í frumhugmyndum félagsins eða orðinn of heimakær. Og enginn bara fílar hann. Þeir sem fyrir sitja sækja oft sitt fólk inn en eitt gleymist þó oft. Málstaðurinn. Tilgangurinn. Upphafið. Þegar fram líða stundir eru frumkvöðlarnir flestir farnir og kominn annar hópur sem telur sig vera betri en upphafsfólkið, grunn hugmyndafræðin hefur breyst, skekkst eða rést af, á því er allur gangur.“

Umhverfi félaganna

Kristín rekur að félög verða að vera skráð hjá RSK og lög þess kynnt á stofn/aðalfundi sem og stefna félagsins. Létt fyrirmyndarform af stofnskjölum má finna á vef fyrirtækjaskrár og eru oftar en ekki birt tiltölulega óbreytt og samþykkt sem stefnuskrá félagsins, einungis fyllt inn í eyður og settar réttar kennitölur. 

„Stundum stækka félögin hratt og innanhússpennan eykst því fleiri vilja skreyta sig með fjöðrum sem allt í einu eru orðnar að heilum, lekkerum fugli. Forsprakkar gefast upp, fara, er vísað frá  og þá koma oft inn stjórnarmeðlimir sem stundum tengjast málefninu á einhvern hátt en stundum virðast þetta vera einstaklingar sem vantar reynslu af stjórnarsetu eða eitthvað smart á ferilsskrána eða hinn hópurinn, þeir sem sjá sæng sína útbreidda sér í hag, upplifa stjórnarsetu sem einhverskonar stöðutákn og sér til hagsbóta. Einhverskonar status. Mitt helsta skot Kári Stefánsson sat eða situr í stjórn SÁÁ og lét hafa eftir sér í miðjum innanbúðarstormi þar: Ég er í stjórn þarna en mæti aldrei á fundi. Eitthvað athugavert við þetta?“ spyr Kristín.

„Á meðan stjórnarstarfið einkennist oftar en ekki af pólitík og valdabaráttu er oft komin blómleg starfsemi. Starfsemi sem á sinn daglega takt, með starfsfólk sem vinnur á vinnustöð og er orðið partur af heild. Framkvæmdastjóri er starfandi og er hans starf að sjá um rekstur og sjá til þess að allt fari fram skv samþykktum félagsins og stefnu þess sé fylgt.

Þá komum við að áhugaverða hlutnum. Stjórnarseta félagasamtaka er oftast ólaunuð sem gerir það að völdum að sjálfboðaliðar hlutast til í hjáverkum um tugi, jafnvel hundruða milljóna einingar og jafnvel um málefni sem snúa að daglegum rekstri og starfsmannahaldi. Því það eru engin lög um stjórnir félagasamtaka. Ekki eins og í fyrirtækjum. Aftur. Oft gæti þetta snúist um gróða? Um eiginhagsmunasemi?“

Kristín segir að eðlilegra væri að lögbundið hlutverk þeirra væri að sinna eftirlitshlutverki og leggja málefninu lið með fjáröflunum og slíku.

„Þrátt fyrir þessa staðreynd að stjórnir félagasamtaka geti auðveldlega misnotað aðstæður sínar og vald hefur löggjafinn ekki séð ríka ástæðu til að setja lög um félagaformið líkt og gert hefur verið um önnur félagaform, svo sem hlutafélög og einkahlutafélög.

Ábyrgð stjórnarmanna  virðist því vera þegar hentar mikil og stundum lítil og ljóst er að það er algjör vöntun á reglum eða lögum um skaðabótaábyrgð stjórnarmanna, hæfni þeirra og ályktunarhæfi stjórnar sem og siðareglur. Siðareglur og starfsreglur stjórna félagasamtaka ættu að sjálfsögðu að vera lögbundið fyrirbæri. Það er klárt mál að þörf er á heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka sem þiggja brosandi styrki frá öllum en eru oft rekin eftir geðþótta, af mis miklum heilindum og ólíkum hvata. Málefnið skiptir oft minna máli en maðurinn. Og það svíður,“ segir Kristín.

„Á meðan ekki er virkt eftirlit, þrífst einelti, eiginhagsmunasemi, óheilindi og annað miður gott í mikilvægu umhverfi sem getur varðað líf. Margir mega skammast sín.“

Hvetur fólk til að mæta á aðalfundi 

Kristín segir oft fáa eða enga mæta aðalfundi til þess að kjósa í hið mikilvæga stjórnarstarf og því er fólk oft sjálf kjörið aftur og aftur eða kemur sínu fólki að. Og svona syngja oft hin fínustu félög sitt síðasta eða missa sjarmann.

„Það er aðalfundur hjá Píeta Samtökunum þann 5. mars. Mér þykir vænt um þessi samtök. Þau skipta svo miklu máli. Þau opnuðu starfstöð sína árið 2018. Og eru nú að auglýsa eftir fimmta framkvæmdastjóranum.

Þegar þú ert meðlimur í félagasamtökum þá átt þú atkvæði, þú átt rödd.Þú átt rétt á að fá upplýsingar um starfsemina. Þú átt rétt á að fá boð á fundi og geta tekið þátt í starfinu. Ég veit að mörg ykkar gerðust félagar í Píeta og eruð mörg enn.

Það er óskandi að einhver nenni að mæta og bjóða sig fram til stjórnar samtakanna. Einhver sem brennur fyrir málsstaðnum, einhver sem sér málstaðinn. Nennir að mæta á fundi. Nennir að vinna samkvæmt ábyrgð. Ekki eitthvað fyrir sig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bræður ráku pabba sinn úr fjölskyldufyrirtækinu í Grindavík – Ásakanir á víxl um tug milljóna fjárdrátt

Bræður ráku pabba sinn úr fjölskyldufyrirtækinu í Grindavík – Ásakanir á víxl um tug milljóna fjárdrátt
Fréttir
Í gær

Húseigandi í miðbænum grunlaus um heimild fyrir byggingu íbúðarhúss á lóð hans – Reyndi að kæra en var of seinn

Húseigandi í miðbænum grunlaus um heimild fyrir byggingu íbúðarhúss á lóð hans – Reyndi að kæra en var of seinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur segir Ísland orðið of dýrt: „Þessi háa verðlagning er að koma í bakið á okkur núna“

Guðmundur segir Ísland orðið of dýrt: „Þessi háa verðlagning er að koma í bakið á okkur núna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögregla kölluð út vegna ágreinings um kött – Hver átti hann?

Lögregla kölluð út vegna ágreinings um kött – Hver átti hann?