Greint er frá andláti hennar í Morgunblaðinu í dag.
Hildur útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1972 og lauk BA-prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1980. Hún starfaði sem grunnskólakennari og við dagskrárgerð hjá RÚV auk þess að fjalla um bækur í dagblöðum.
Þá kenndi hún íslensku og bókmenntir við Fósturskóla Íslands árin 1982 til 1986 og sem ritstjóri barnabóka hjá Bókaútgáfu Máls og menningar frá 1986 til 2000.
Hildur stofnaði í kjölfarið Bókaútgáfuna Sölku ásamt Þóru Sigríði Ingólfsdóttur og tók alfarið við útgáfunni árið 2002 og rak hana til haustsins 2015 að hún seldi fyrirtækið og stofnaði Textasmiðjuna.
Hildur sat meðal annars í stjórn Máls og menningar meðan hún starfaði þar og í mörg ár í stjórn Félags Íslenskra bókaútgefenda. Þá sendi hún frá sér bókina Ástin á Laxá, Hermóður í Árnesi og átökin miklu árið 2022.
Eiginmaður Hildar var Jafet Sigurður Ólafsson framkvæmdastjóri en hann lést í nóvember síðastliðnum. Börn þeirra eru þrjú og barnabörnin fimm.