Maður, sem er um tvítugt, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir tilraun til manndráps með því að hafa framið afar hrottalega hnífsstunguárás í Grafarholti í Reykjavík í nóvember síðastliðnum. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þolandi árásarinnar hlaut mikla áverka og ástæða er til að vara við lýsingum sem fara hér á eftir.
Málið vakti mikinn óhug þegar það kom upp en talið var líklegt að stunguárásin tengdist deilum milli hópa og sömuleiðis stunguárás í fangelsinu á Litla-Hrauni og skotárás í Úlfarsárdal sem framdar höfðu verið skömmu áður.
Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að hinn ákærði hafi ráðist á þolandann, sem einnig er karlmaður, fyrir utan íbúð og síðan elt hann uppi þegar hann hljóp í burtu og stungið hann margsinnis með hníf.
Voru afleiðingarnar þær að þolandinn hlaut 2-2,5 sentímetra stungusár aftanvert á vinstri brjóstkassa yfir herðablaði. Einnig 2,5 sentímetra stungusár framanvert á hægri brjóstkassa og síðu yfir rifjabarðinu skáhallt niður frá geirvörtu og beint neðan undan fremri fellingu holhandar (handarkrika) yfir lifrarsvæði. Þriðji skurðurinn var djúpur neðanvert á vinstri framhandlegg niður undan olnboga og fór að hluta til í gegnum sinar og sinafell þannig að réttisin olnboga var tekin í sundur að hluta og djúpt inn í vöðvann. Loks hlaut þolandinn skurð á vinstri baugfingri þar sem stór hluti gómsins skarst af lófamegin.
Krefst héraðssaksóknari þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar en þolandinn gerir kröfu um 2.500.000 krónur í miskabætur auk vaxta.