„Þar geta orðið eldgos og hafa orðið eldgos. Við erum að búa okkur undir það, neðansjávargos.“
Þetta segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag en hann er gestur í nýjasta þætti Dagmála sem sýndur er á mbl.is.
Brot úr viðtalinu birtist á síðum Morgunblaðsins í dag og þar kemur fram að vísindamenn séu viðbúnir því að eldgos geti hafist við Eldey. Eldey er klettadrangur um 15 kílómetra suðvestan við Reykjanes og þar er ein stærsta súlubyggð í heimi. Þá er eyjan fræg fyrir þær sakir að þar var síðasti geirfuglinn drepinn árið 1844.
Í umfjöllun Dagmála kemur fram að GPS-mælingar séu hafnar á eyjunni en bent á að flókið sé að mæla landris við hafsbotninn. Segir Freysteinn að í raun sé lítill munur á svæðunum á Reykjanesskaga og þeim sem eru næst landi við reykjaneshrygg.
Jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu að undanförnu og segir Freysteinn að komi til eldgoss þar geti það létt á Svartsengiskerfinu þar sem mikilvægir innviðir eru.
Þá segir Freysteinn að ekki sé óhugsandi að kvika geti leitað aftur í Fagradalsfjallskerfið. Land þar hafi ekki sigið þrátt fyrir þrjú eldgos á tveimur mánuðum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag og í Dagmálum á mbl.is.