fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Davíð Þór ómyrkur í máli: Það er verið að mata okkur á þeirri hugmynd að ekki sé hægt að elska alla

Ritstjórn DV
Mánudaginn 19. febrúar 2024 08:40

Davíð Þór Jónsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Þór Jónsson prestur flutti prédikun í Háteigskirkju í gær sem vakið hefur talsverða athygli. Þar fjallaði Davíð meðal annars um umræðuna um stöðu útlendingamála hér á landi og „sprungna innviði“ sem stundum er talað um.

Í prédikun sinni, sem hægt er að nálgast á heimasíðu Davíðs, kom hann víða við og notaði líkingamál til að varpa ljósi á stöðuna sem er uppi.

Morðæði blóðþyrstra valdhafa

Bað hann fólk að ímynda sér að á Íslandi væru tveir starfandi læknar og tíu sjúkrarúm. Um leið og ellefti Íslendingurinn þurfi að leggjast inn á spítala dúkki heilbrigðisráðherra upp í sjónvarpi og væli undan því að heilbrigðiskerfið sé sprungið.

„Ég hugsa að flest okkar myndu sjá í hendi sér að það þyrfti að fjölga sjúkrarúmum og heilbrigðisstarfsfólki svo heilbrigðiskerfið væri fært um að sinna því sem því er ætlað að sinna og veita þá þjónustu sem hlutverk þess er að veita. Við myndum, vona ég, ekki taka mikið mark á því að ekki væri hægt að gera betur og nú þyrfti þjóðin bara að gjöra svo vel og hætta að veikjast,“ sagði Davíð og bætti við að þetta væri ekki tilbúið dæmi. Að vísu væri það ekki heilbrigðiskerfið sem ætti í hlut. Þar sé ástandið ekki alveg svona slæmt þótt vissulega mætti margt bæta.

„Nei, það eru þau kerfi og ferlar sem við höfum komið okkur upp til að taka á móti fólki, sem neyðst hefur til að flýja heimili sín vegna morðæðis og sprengjuregns blóðþyrstra valdhafa, sem við erum nú stanslaust mötuð á því í fréttum að ráði ekki lengur við álagið sem er á þeim. Innviðirnir eru sprungnir, er sagt.“

Hinn valkosturinn ekki í boði?

Davíð Þór sagði að innviðirnir svokölluðu séu ekki einhver óviðráðanlegur fasti sem við getum ekki breytt á nokkurn hátt.

„Samt er okkur sagt að innviðirnir séu sprungnir og þess vegna verðum við að skera niður þá mannúð sem við erum aflögufær um handa fólki í neyð og jafnvel bráðri lífshættu. Það er eins og hinn valkosturinn, að stækka innviðina svo þeir ráði við að mæta því álagi sem á þeim er, sé ekki í boði,“ sagði hann og bætti við að ef það vantar sjúkrarúm þá blasi við að þeim þurfi að fjölga.

„En þegar kemur að því að hýsa hina veglausu, þá sem eiga hvergi höfði að að halla, þá er eins og það sé fáránleg hugmynd að við getum stækkað faðminn sem tekur á móti þeim og því sé eina mögulega úrræðið sem hægt sé að grípa til að skera niður náungakærleikann,“ sagði hann.

Davíð sagði að innviðirnir væru sprungnir út af pólitískum ákvörðunum um það hve stórir þeir eiga að vera. „Það eru ekki hælisleitendurnir sem valda því að innviðirnir eru sprungnir. Þeir eru bara að reyna að bjarga lífi sínu og lái þeim það hver sem vill.“

Velmegunarblindan á Íslandi

Davíð sagði svo að þegar hann heyrir talað um sprungna innviði á Íslandi geti hann ekki varist því að finna til dálítillar gremju vegna velmegunarblindunnar sem orðalagið afhjúpar.

„Ég fylgist nefnilega með fréttum frá Gasa. Og þessum fréttum fylgja ljósmyndir. Þessar ljósmyndir sýna sprungna innviði. Bókstaflega. Sjúkrahúsin eru sprungin. Skólarnir eru sprungnir. Íbúðarhúsin eru sprungin. Göturnar eru sprungnar. Og af hverju er þetta allt sprungið. Jú, af því að það var varpað sprengjum á þetta allt saman og það var sprengt til helvítis. Og inn á milli birtast hjartaskerandi myndir af fólki, jafnvel ungum börnum, sem ástæða þótti til að varpa sprengjum á, sprengja af þeim útlimi og úr þeim líftóruna. Okkar innviðir eru ekki sprungnir. Þeir eru aðframkomnir af fjársvelti,“ sagði Davíð.

Davíð kom inn á það að verið væri að mata okkur á þeirri eitruðu hugmynd að kærleikurinn sé takmörkuð auðlind.

„Það er verið að mata okkur á þeirri hugmynd að við getum ekki elskað náungann … ekki alla náunga og því verðum við að forgangsraða og forgangsröðunin skuli vera á þann veg að þeir sem eru skyldastir okkur skuli teknir fram fyrir röðina. Að við höfum meiri skyldur gagnvart tólfmenningi okkar úr öðrum landshluta sem við höfum aldrei hitt, heldur en gagnvart útlendingi sem horft hefur upp á heimili sitt, ástvini og land sprengt í þúsund mola og stendur uppi blásnauður með aleiguna fangi sér – hugsanlega svo lánsamur að í fangi hans séu líka börn á lífi og hans eina úrræði sé að koma sér eins langt í burtu og mögulegt er til að bjarga lífi barnanna.“

Davíð Þór benti svo á að valdið væri okkar til að velja og hafna.

„Okkur er gefið vald til að ráða því sjálf hverju við trúum. Okkur er gefið vald til að hafna eitraðri heimsmynd og baneitruðum mannskilningi. Og síðast en ekki síst þá erum við svo lánsöm að búa í samfélagi þar sem okkur er gefið vald til að velja okkur leiðtoga sjálf. Það er brýnt að við vöndum okkur vel við það. Að við kjósum kærleikann. Hann á nefnilega undir högg að sækja,“ sagði hann.

Prédikun Davíðs Þórs má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg