„Nú er ástæða til að kaupa popp og kók og fylgjast með Spaugstofu Samfylkingarinnar þar sem Ragnar Reykás er í aðalhlutverki,“ segir Brynjar í pistli á Facebook.
Athygli vakti á dögunum þegar Kristrún lýsti því yfir að hælisleitendakerfið vera ósanngjarnt og Ísland þurfi að ganga í sama takti og Norðurlöndin. Þá sagði Kristrún að velferðarsamfélög þurfi landamæri og kerfið sem nú er við lýði sé ósjálfbært.
Ummæli Kristrúnar vöktu athygli og voru ýmsir sem héldu því fram að um væri að ræða mikla stefnubreytingu hjá Samfylkingunni í innflytjendamálum.
Brynjar segir að helstu kanónur Samfylkingarinnar, fyrr og nú, séu dregnar á flot til að segja okkur að viðhorf formannsins sé ekki í andstöðu við stefnu Samfylkingarinnar í málefnum útlendinga og hælisleitenda.
„Jafnvel leitað á náðir fræðimanna í sama tilgangi, sem hafa þó ekki haft fyrir því að kynna sér lögin og það kerfi sem sniðið er utan um málefnin,“ segir Brynjar sem heldur áfram:
„Það er ekki nýtt að Samfylkingin tali út og suður eftir því hvernig vindar blása, eins og vinur okkar í Spaugstofunni. Er regla frekar en undantekning og mörg Íslandsmet slegin í hoppi á vinsældarvagna, með og án atrennu. Fagna ber hins vegar að að það örli á skynsemi og raunsæi í málflutningi formanns Samfylkingarinnar þegar kemur að málefnum útlendinga, sem hefur verið óþekkt hjá þingmönnum hennar hingað til.“
Brynjar sendir svo þingmönnum tóninn og segir að ruglið og stjórnleysið í málaflokknum sé á ábyrgð þingsins.
„Mest er ábyrgðin þó þeirra sem hafa staðið gegn öllum nauðsynlegum og skynsamlegum breytingum á löggjöfinni. Þar hafa þingmenn Samfylkingar staðið í stafni ásamt Pírötum og Sigmari Guðmundssyni. Það er engin mannúð og manngæska í því og þingmenn ættu að leiða hugann að því í hvers umboði þeir starfa og hverra hagsmuna þeir eru kosnir til að gæta.“