fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Segir nýja og óhugnanlega tegund af leigubílstjórum hóta farþegum – „Ég veit hvar þú átt heima“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 17. febrúar 2024 09:00

Daníel Orri Einarsson er formaður Frama, félags bifreiðastjóra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það sem er svo óþægilegt, og þess vegna erum við að óska eftir viðtali við lögregluna, er að við fáum svo margar sögur í bílunum – fólk hringir í okkur, eða framkvæmdastjóra Hreyfils út af bílstjórum sem starfa ekki á stöðvum. Þá er fólki brugðið yfir því að leigubílar geti allt í einu verið án stöðvar. Þessu hefur fylgt kynferðislegt áreiti, óeðlilega hátt verð og hótanir, t.d. ef farþegi neitar að greiða uppsprengt verð. Fólki trúir því að við höfum enn eitthvað með þetta að gera, en áhrifamáttur okkar var fjarlægður í lagabreytingunni,“ segir Daníel Orri Einarsson, formaður Frama, félags bifreiðastjóra, í viðtali við DV, um það sem hann telur vera ófremdarástand á leigubílamarkaði eftir að lagabreyting var gerð varðandi þau skilyrði sem leigubílaakstri eru mörkuð.

Frumvarp til laga um leigubílaakstur varð að lögum í desember 2022 og helstu breytingarnar voru þær að ekki þarf lengur að vera skráður á leigubílastöð til að hljóta starfsleyfi, takmörkunarsvæði á fjölda starfsleyfa og vinnuskylda voru lögð niður, Ísland varð eitt svæðí.

Meint nauðgun erlends leigubílstjóra vekur óhug

Á fimmtudag, leitaði DV viðbragða hjá Daníel vegna frétta um að til rannsóknar væri meint kynferðisbrot erlends manns sem starfar sem leigubílstjóri hér á landi og annars manns, gagnvart ungri konu sem var farþegi í bíl leigubílstjórans. Hefur Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfest í samtali við DV að mál af þessum toga sé í rannsókn. Í fimmtudagsfréttinni var boðað ítarlegra viðtal við Daníel, en áður en lengra er haldið, fer hér á eftir meginhluti viðtalsins á fimmtudag:

Fjölmargar kvartanir og sögur hafa verið í umferð vegna meintra brota og óeðlilegrar framkomu leigubílstjóra undanfarið. Daníel Orri segir að Frami hafi beitt sér gegn lagabreytingunni með öryggi farþega og bílstjóra í huga en ekki hafi verið um einokunartilburði að ræða.

„Það voru felld úr gildi lög um leigubíla sem voru með öryggi almennings að leiðarljósi. Sem höfðu verið mótuð og meitluð í gegnum áratugina út af einu og öðru sem hefur komið upp í leigubílaakstri til að tryggja farsæl viðskipti í leigubifreiðum og farsælan feril hjá bílstjórunum sjálfum, því öruggt umhverfi farþega er líka öruggt umhverfi bílstjóranna, að búa við eðlilega sátt viðskiptavina,“ segir Daníel.

„Við bentum stjórnvöldum á þetta í okkar umsögnum og líka það að þessi starfsemi er þess eðlis að í hana leita oft menn sem hafa eitthvað misjafnt í huga og þess vegna höfum við oft síað þá út vegna þess að það hefur verið í hendi okkar sjálfra að benda á það þegar eitthvað gerist og þá hafa þeir ekki fengið að keyra framar leigubíl. Það þurfti ekki alltaf kæru til, ef orðsporið spurðist út þá var það nóg. Þetta var tekið úr lögum,“ segir hann ennfremur og vísar til þeirrar breytingar að bílstjórar þurfa ekki lengur að vera skráðir á leigubílastöð.

„Síðasta frumvarpið var bara keyrt í gegn án þess að tala við okkur, án þess að veita okkur viðtal, við óskuðum eftir áheyrn vegna þess að þetta gerðist svo hratt bara síðustu dagana í desember fyrir jól. Þegar við sáum í hvað stefndi óskuðum við eftir viðtali við ráðherra því við vorum ekki búnir að njóta áheyrnar. Þá er þetta bara keyrt í gegn með hraði. Við vorum með ákall á ríkisstjórnina 16. Desember, 2022, í lok umræðunnar, stóðum þarna úti í 40 mínútur í brunagaddi og ég afhenti Sigurði Inga innviðaráðherra ákall okkar. Hann tók við því en hvað varð um það? Hann lofaði okkur fundi en sveik okkur um fund. Þetta var samþykkt á Alþingi í algjöru þekkingarleysi þingmanna um alvarleika málsins.“

Vissu að málið var alvarlegt

„Núna sjáum við ávöxtinn, þetta eru afleiðingarnar sem við vorum búnir að vara við. En það var ekki hlustað á okkur. Það var gert grín að okkur í fjölmiðlum og sagt að við værum með rangar hugmyndir og værum að passa upp á einokun. En þetta er það sem við vorum búnir að vara við,“ segir hann og vísar til atviksins á Keflavíkurflugvelli.

„Núna er þetta að færast í aukana og við höfum óskað eftir viðtali hjá lögreglu vegna þess að við höfum haft verulegar áhyggjur af ástandinu. Nú kemur þessi atburður til tals, það var handtekinn maður þarna uppfrá og við höfðum strax samband við Samgöngustofu sem sagði okkur að úr því að bíllinn var haldlagður og maðurinn handtekinn þá hlyti eitthvað alvarlegt að hafa gerst í bílnum. Þannig að við urðum strax hræddir um að eitthvað glæpsamlegt hefði gerst.“

(fimmtudagsviðtali lýkur)

Þetta snýst ekki um útlendinga

Daníel telur ískyggilega þróun hafa orðið á leigubílamarkaðnum eftir lagabreytinguna:

„Það hefur verið að færast í aukana ofbeldi og ágreiningur, sérstaklega meðal þessarra bílstjóra sem eru nýir. Ósk Framsóknarmanna var sú að nú myndu húsmæður og stúdentar koma út og keyra því nú væri þetta orðið svo opið og aukið aðgengi að stéttinni. Meira frjálslyndi, aukin samkeppni, betra verð. En það sem gerist er öfugt, verðið er búið að hækka mikið, það er slegist um ferðirnar í stæðunum og færri konur sækja um leyfi, þetta eru mest allt karlkyns innflytjendur.“

Daníel bendir á að frjáls álagning hafi síður en svo leitt til lægra verðs, þvert á móti séu nýju bílstjórarnir að okra og svindla á ferðamönnum, t.d. með því að keyra startgjaldið upp í tíu þúsund krónur. „Það er frjáls verðlagning, þeir keyra verðið upp og eru í fullum rétti með það af því verðlagningin er orðin frjáls – en fólk upplifir sig rænt.“

Daníel segir að flestir bílstjóranna sem kvartað hefur verið yfir undanfarið séu nýir og óreyndir, þetta snúist ekki um þjóðerni, heldur regluverk sem virki ekki og stríði gegn öryggi farþega og bílstjóra.

„Það má síðan ekki gleyma að ævaforn hefð hafði skapast fyrir því, að áður en menn fengu úthlutað starfsleyfi til reksturs eigin leigubíl fengu þeir starfsreynslu sem afleysingamenn undir handleiðslu reyndra bílstjóra.“

Segir fólk vera hrætt við verstu bílstjórana

Eins og fyrr segir leitar fólk til leigubílstjóra rótgrónu stöðvanna með kvartanir sínar út af meintu ofbeldi eða ósæmilegri hegðun leigubílstjóra af nýrri kynslóð, sem eru utan stöðva.

„Þeir hafa hótað farþegum ef þeir borga ekki uppsett verð, sem getur verið 12 þúsund kall upp í Breiðholt neðan úr bæ, 20 þúsund upp í Mosfellsbæ. Ég veit ekki hvernig mælirinn er stilltur hjá þeim. Ef fólk vill ekki borga uppsett verð hafa þeir sagt: „Ég veit hvar þú átt heima.“ – Af hverju gerir fólk ekkert í þessu? Það er hrætt. Það segir okkur þetta, það treystir því að þetta sé í okkar höndum. Það trúir því að við getum haft áhrif á þetta, en það var tekið úr okkar lögum að við gætum haft áhrif á þetta. Lögum var breytt ólöglega, þannig að við vorum sniðgengnir í samráði, af því það mátti ekki breyta fyrri lögum nema í samráði við okkur. Það var samt gert og atvinnuréttindi okkar skert, samningsréttur okkar um okkar eigin kjör var skertur. Þarna er ráðuneyti og ráðherra að svína á okkar réttindum vísvitandi.“

Stéttin í sárum eftir Covid

Daníel segir að staðan á leigubílamarkaði eftir Covid hafi ýtt undir lagabreytinguna, sem hann telur að hafi verið mikið glappaskot:

„Það var svínað á okkur vegna þess að við vorum ekki nægilega sterkt félag til að standa á okkar réttindum. Við vorum alsettir í því að halda uppi akstursþjónustu. Leigubílstjórum hafði fækkað út af samdrættinum í  Covid. Við vorum búin að vara stjórnvöld við og sögðum: „Nú eru menn atvinnulausir og við erum að missa bílstjórana úr vinnu, það má ekki gerast. Menn þurftu að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar sem skipaði þeim að leggja inn leyfið til þess að geta notið bóta. En af hverju áttum við ekki að geta notið hlutabóta eins og aðrir aðilar í þjóðfélaginu? Við bentum á að myndum vera of fáir loksins þegar samkomubanni yrði aflétt. Þá myndi vanta leigubíla út um allar trissur. Það var nákvæmlega það sem gerðist. Við gerðum allt sem við gátum til að halda uppi góðri þjónustu við erfið skilyrði, en okkur sárvantaði bæði afleysingamenn og leyfishafa. Þannig var okkar hallastaða nýtt til að fella okkur endanlega í þessari baráttu. Það er ljótt til þess að hugsa að það var ráðherra, sem á að hlífa okkur, að það sé hann sem skuli hafa höggvið. Þetta er dapurlegt stjórnarfar og sorglegt að lýðveldið sé það hætt komið að ríkisstjórn tali fyrir erlendum fyrirtækjum og greiði götu þeirra, sem og svörtu hagkerfi, og hundsi íslenska atvinnugrein. Ríkisstjórnin hafði lofað að standa við bakið á íslenkum atvinnuvegi en einn ráð herra skar sig úr hópnum og lét til skarar skríða. Heggur sá er hlífa skyldi.“

Hugur hans er hjá þolandanum

„Við gerðum okkar besta til að koma í veg fyrir þessar hræðilegu afleiðingarnar frelsisvæðingarinnar,“ segir Daníel og víkur talinu að málinu sem er til rannsóknar, þar sem tveir menn, annar erlendur leigubílstjóri, eru grunaðir um að hafa brotið gegn farþega mannsins, ungri konu.

„Við vonumst til að stúlkan nái fullum bata. Þetta er alveg hræðilegt ofbeldi sem brotaþoli mun þurfa að glíma við lengi,“ segir hann og vill í lokin minna á að hægt er að senda kvartanir vegna framgöngu leigubílstjóra á netfangið:

abending@taxi.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum