Eins og flestum ætti að vera kunnugt varð stórbruni í Fellsmúla í Reykjavík í gær þegar kviknaði í dekkjaverkstæði N1. Eldurinn breiddist nokkuð út um húsið, þá einkum á efri hæð þess, þar sem dekkjaverkstæðið er ásamt fleiri fyrirtækjum en með eldvörnum og snarræði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins tókst að koma í veg fyrir að fleiri fyrirtæki á neðri hæð hússins yrðu eldinum að bráð. Einnig tókst slökkviliðinu að koma í veg fyrir að Hreyfilshúsið sem liggur þétt upp að húsinu sem kviknaði í myndi standa í ljósum logum.
Um mikinn eld var að ræða og slökkvistarfi lauk ekki fyrr en tæpum hálfum sólarhring síðar. Kristinn Svanur Jónsson ljósmyndari DV var á vettvangi brunans fyrr í morgun og tók nokkrar myndir. Á þeim má glöggt sjá hversu miklar skemmdir urðu en ljóst er að þær höfðu þó getað orðið mun meiri. Myndirnar má sjá hér fyrir neðan.