Tveir einstaklingar eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á kynferðisbroti gegn konu í byrjun febrúar. Annar maðurinn starfar sem leigubílstjóri og var handtekinn í aðgerð lögreglunnar við flugvöllinn í síðustu viku og var færður til skýrslutöku ásamt hinum manninum. Báðum mönnum var sleppt að loknum yfirheyrslum.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, staðfestir í samtali við DV að málið sé í rannsókn en vill að öðru leyti ekki gefa frekari upplýsingar um málið enda rannsóknin á viðkvæmu stigi.
Báðir mennirnir eru erlendir ríkisborgarar og hafa verið búsettir á Íslandi í nokkur ár. Handtakan fór ekki framhjá öðrum leigubílstjórum sem voru staddir á Keflavíkurflugvelli þegar aðgerðin átti sér stað og hefur málið verið til umræðu á samfélagsmiðlum síðan.