Eins og DV greindi frá fyrr í dag var leigubílstjóri handtekinn í leigubílaröðinni við Keflavíkurflugvöll, grunaður um að hafa nauðgað konu í samverknaði með öðrum manni. Hefur Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfest í samtali við DV að málið sé í rannsókn.
Þann 1. apríl 2023 tók gildi lagabreyting sem gerir einstaklingum kleift að starfa við leigubílaakstur án þess að vera skráðir á starfandi leigubílastöð. Frami, félag bifreiðastjóra, beitti sér ákaft gegn reglugerðarbreytingunni. Daníel Orri Einarsson, formaður Frama, segir í viðtali við DV að nú séu að koma fram þær afleiðingar af lagabreytingunni sem menn óttuðust.
Fjölmargar kvartanir og sögur hafa verið í umferð vegna meintra brota og óeðlilegrar framkomu leigubílstjóra undanfarið. Daníel Orri segir að Frami hafi beitt sér gegn lagabreytingunni með öryggi farþega og bílstjóra í huga en ekki hafi verið um einokunartilburði að ræða.
„Það voru felld úr gildi lög um leigubíla sem voru með öryggi almennings að leiðarljósi. Sem höfðu verið mótuð og meitluð í gegnum áratugina út af einu og öðru sem hefur komið upp í leigubílaakstri til að tryggja farsæl viðskipti í leigubifreiðum og farsælan feril hjá bílstjórunum sjálfum, því öruggt umhverfi farþega er líka öruggt umhverfi bílstjóranna, að búa við eðlilega sátt viðskiptavina,“ segir Daníel.
„Við bentum stjórnvöldum á þetta í okkar umsögnum og líka það að þessi starfsemi er þess eðlis að í hana leita oft menn sem hafa eitthvað misjafnt í huga og þess vegna höfum við oft síað þá út vegna þess að það hefur verið í hendi okkar sjálfra að benda á það þegar eitthvað gerist og þá hafa þeir ekki fengið að keyra meira. Það þurfti ekki alltaf kæru til, ef orðsporið spurðist út þá var það nóg. Þetta var tekið úr lögum,“ segir hann ennfremur og vísar til þeirrar breytingar að bílstjórar þurfa ekki lengur að vera skráðir á leigubílastöð.
„Síðasta frumvarpið var bara keyrt í gegn án þess að tala við okkur, án þess að veita okkur viðtal, við óskuðum eftir áheyrn vegna þess að þetta gerðist svo hratt bara síðustu dagana í desember fyrir jól. Þegar við sáum í hvað stefndi óskuðum við eftir viðtali við ráðherra því við vorum ekki búnir að njóta áheyrnar. Þá er þetta bara keyrt í gegn með hraði. Við vorum með ákall á ríkisstjórnina 18. desember í lok umræðunnar, stóðum þarna úti í 40 mínútur í brunagaddi og ég afhenti Sigurði Inga innviðaráðherra ákall okkar. Hann tók við því en hvað varð um það? Hann lofaði okkur fundi en sveik okkur um fund. Þetta var samþykkt á Alþingi í algjöru þekkingarleysi þingmanna um alvarleika málsins.“
„Núna sjáum við ávöxtinn, þetta eru afleiðingarnar sem við vorum búnir að vara við. En það var ekki hlustað á okkur. Það var gert grín að okkur í fjölmiðlum og sagt að við værum með rangar hugmyndir og værum að passa upp á einokun. En þetta er það sem við vorum búnir að vara við,“ segir hann og vísar til atviksins á Keflavíkurflugvelli.
„Núna er þetta að færast í aukana og við höfum óskað eftir viðtali hjá lögreglu vegna þess að við höfum haft verulegar áhyggjur af ástandinu. Nú kemur þessi atburður til tals, það var handtekinn maður þarna uppfrá og við höfðum strax samband við Samgöngustofu sem sagði okkur að úr því að bíllinn var haldlagður og maðurinn handtekinn þá hlyti eitthvað alvarlegt að hafa gerst í bílnum. Þannig að við urðum strax hræddir um að eitthvað glæpsamlegt hefði gerst.“
Daníel vill koma því á framfæri að þeir sem kunna að hafa kvartanir vegna framkomu leigubílstjóra geta sent ábendingu á netfangið abending@taxi.is