Franskur ferðamaður krafði hótel um bætur fyrir farangur sem hótelið geymdi fyrir hana en var stolið meðan hún skoðaði höfuðborgina. Hótelið tók ekki til varna hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa né skilaði neinum gögnum og var því fallist á kröfu ferðamannsins um bætur.
Konan hafði bókað gistingu fyrir sig og eiginmann sinn í eina nótt á hóteli þann 11. ágúst 2022 og greiddi fyrir það 99 evrur. Á brottfarardegi sagðist konan hafa óskað eftir því að fá að geyma farangur þeirra hjóna í afgreiðslu hótelsins á meðan þau myndu skoða sig um í Reykjavík. Þegar hjónin komu til baka hafi farangur þeirra verið horfinn.
Konan fékk þá þær upplýsingar frá starfsmanni að þar sem engin læst geymsla væri til staðar á hótelinu hefði farangurinn verið geymdur á gangi, bak við afgreiðsluna, án nokkurs eftirlits.
Hjónin þurftu að ná flugi til Frakklands og gat konan því ekki leyst málið að fullu á hótelinu.
Segir hún starfsmann í móttöku hótelsins hafa fullyrt að hún fengi farangur sinn bættan í kjölfar þess að hún myndi gefa skýrslu um atvikið hjá lögreglu. Hafi konan gert það, en ekki fengið tjónið bætt og hótelið ekki svarað ítrekuðum tölvupóstum hennar.
Í niðurstöðu Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa er byggt á þeim upplýsingum og gögnum sem konan lagði fram. Aðilar þessa máls sömdu munnlega um að hótelið myndi geyma farangur konunnar hluta úr degi en þegar hún hugðist ná í umræddan farangur var hann horfinn úr vörslum hótelsins án haldbærra skýringa.
Í ljósi almennra tillitsskyldna sem hvíla á aðilum í gagnkvæmu samningssambandi bar hótelinu, sem tók að sér geymslu farangursins, að velja geymsluhátt hans með forsvaranlegum hætti. Það gerði hótelið ekki, enda var farangurinn geymdur á gangi, án eftirlits, en ekki í geymslurými og virðist konan ekki hafa verið upplýst um þennan geymslumáta. Þar sem hótelið vanrækti umrædda tillitsskyldu sína með saknæmum hætti hefur það skapað sér skaðabótaskyldu. Í kvörtun sinni til nefndarinnar tiltók konan alla þá hluti sem í farangri hennar voru og er upptalningin í samræmi við skýrslu hennar hjá lögreglu, dagsettri 19. ágúst 2022. Konan lagði jafnframt fram kvittanir fyrir kaupum á hluta þess fatnaðar sem í farangrinum voru. Féllst því nefndin á kröfu konunnar um að hótelinu bæri að greiða henni 1.206 evrur í skaðabætur vegna hins horfna farangurs.
Konan fékk málskotsgjald að fjárhæð 5.000 krónur endurgreiddar, en hótelinu var gert að greiða gjald vegna kostnaðar nefndarinnar af meðferð málsins að fjárhæð 35.000 krónur.