Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg kemur fram að einn maður úr þriggja manna áhöfn léttabáts Herjólfs hafi fallið útbyrðis þegar eldur varð laus í vélarrúmi bátsins fyrr í kvöld.
Herjólfur var þá á leið úr Landeyjahöfn til Vestmannaeyja og var ferðin notuð til að æfa notkun léttabátsins.
Björgunarskipið Þór hafi verið kallað út á hæsta forgangi og haldið úr höfn í Vestmannaeyjum kl 18:35, til móts við Herjólf og léttabátinn.
Þegar Þór hafi komið á staðinn, nokkrum mínútum síðar, hefðu þeir tveir sem um borð í léttabátnum voru, náð félaga sínum sem féll útbyrðis aftur um borð og áhöfninni tekist að slökkva eldinn með slökkvikerfi í vélarrúmi hans. Engin hætta hafi þá lengur verið á ferðum.
Áhöfn léttabátsins var tekin um borð í Bs Þór og áhöfn Þórs kom toglínu í léttabátinn. Þór hélt svo með léttabátinn í togi til hafnar í Vestmannaeyjum.
Þeir þrír sem voru um borð í léttabátnum hafi verið fluttir með sjúkrabíl til skoðunar á sjúkrahúsi Vestmannaeyja, að eigin ósk.
Í tilkynningunni að lokum kemur fram að gott veður og sjólag hafi verið á staðnum og aðgerðir gengið vel. Þór var lagstur að bryggju og verkefni áhafnar skipsins lokið um 45 mínútum eftir að lagt var úr höfn.
Myndir frá aðgerðunum í kvöld má sjá hér að neðan.