Þetta sagði Christoph Heusgen, sem stýrir hinni árlegu öryggismálaráðstefnu í München, í samtali við dagblaðið General Anzeiger og bætti við: „Ef Pútín tapar ekki stríðinu í Úkraínu, þá verðum við að vera meðvituð um að hann gæti því næst ráðist á Moldóvu eða Eystrasaltsríkin.“
Heusgen var ráðgjafi Angela Merkel, kanslara, í utanríkismálum frá 2007 til 2017. Því næst var hann sendiherra Þýskalands hjá SÞ og síðan tók hann við stjórn öryggismálaráðstefnunnar í München.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur hvatt Evrópuríki til að auka vopnaframleiðslu sína til að geta stutt betur við bakið á Úkraínu og koma í veg fyrir hættuna á „áratugalöngum deilum við Moskvu“.
Þetta sagði hann í samtali við þýska dagblaðið Welt am Sonntag og benti á að Evrópa verði að endurskipuleggja sig og víkka iðnaðarframleiðslu sína enn hraðar út til að hægt sé að láta Úkraínumönnum meira af vopnum og skotfærum í té og fylla á birgðageymslur Evrópuríkja.