Greint er frá því á Facebook-síðu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi að Frans páfi hafi nýlega verið upplýstur um það sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að ganga í gegnum undanfarin misseri. Segir í færslunni að páfinn hafi í kjölfarið beðið fyrir þeim.
Það var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, David B. Tencer, sem upplýsti páfann um stöðu mála í Grindavík. Biskupinn segir að dagana 6. til 10. febrúar hafi hann verið staddur í Róm til að undirbúa framhaldsnám prestnema nokkurs sem er þar á vegum kirkjunnar hér á landi.
Tencer segist hafa verið meðal þeirra sem tóku þátt í reglulegri áheyrn páfans. Biskupinn og páfinn ræddu saman um stund og segist Tencer hafa nýtt tækifærið til að upplýsa þennan æðsta leiðtoga kaþólsku kirkjunnar um hinar erfiðu aðstæður í Grindavík og það sem Grindvíkingar hafa þurft að þola í kjölfarið:
„Hann fór með stutta bæn og veitti fólkinu í neyð postullega blessun sína.“
Tencer segir að lokum að páfinn hafi beðið hann um að gera nokkuð fyrir sig:
„Við skulum líka biðja fyrir honum. Hann bað mig um það.“