Persónuvernd hefur birt úrskurð sinn vegna kvörtunar, réttindagæslumanns fatlaðs fólks, fyrir hönd manns nokkurs sem sætt hafði öryggisvistun á vegum Reykjavíkurborgar. Maðurinn kvartaði yfir því að borgin hefði miðlað viðkvæmum persónuupplýsingum um hann til félagsmálaráðuneytisins og einnig yfir því að ráðuneytið hefði miðlað þessum upplýsingum, ásamt viðbótar persónuupplýsingum, til héraðssaksóknara. Var það niðurstaða Persónuverndar að miðlun á persónuupplýsingum um manninn hefði í öllum tilvikum verið í samræmi við lög.
Samkvæmt kvörtunin afhenti Reykjavíkurborg félagsmálaráðuneytinu skrá yfir 102 atvik sem upp komu frá febrúar 2018 til júlí 2019 þegar maðurinn var í öryggisvistun á vegum borgarinnar, samkvæmt samningi við ráðuneytið. Í skránni sem ráðuneytið hafi sent áfram til héraðssaksóknara hafi verið viðkvæmar persónuupplýsingar um manninn. Auk þess hefði ráðuneytið engar heimildir til að nota viðkvæmar persónuupplýsingar um manninn við stefnumótunarvinnu sína líkt og ráðuneytið beri við.
Í sjónarmiðum Reykjavíkurborgar kemur meðal annars fram að skráin hafi líklega verið prentuð út úr kerfum borgarinnar, þar sem hún hafi verið skráð sem trúnaðarskjal, og líklega kynnt á fundi í félagsmálaráðuneytinu sem hafi haft lagalegan og samningsbundin rétt til að fá skrána.
Miðlun persónuuupplýsinga mannsins hafi verið í samræmi við lög og þar að auki nauðsynleg til að uppfylla lagaskyldu borgarinnar vegna þeirrar þjónustu sem hann hafi átt rétt á en líka vegna almannahagsmuna.
Maðurinn bjó í sérsniðnu lokuðu úrræði á vegum borgarinnar fram til ársins 2020 þegar ríkissaksóknari tók ákvörðun um að hann skyldi vistaður á vegum ríkisins á réttargeðdeildinni á Kleppsspítala. Borgin bendir einnig á að þegar persónuupplýsingum mannsins var miðlað hafi hann verið sviptur lögræði.
Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi fyrst verið fluttur í lokað úrræði hjá borginni þegar hann var 15 ára. Hann var síðar dæmdur í héraðsdómi til að sæta vistun í slíku úrræði og þiggja stuðning á grundvelli fötlunar sinnar.
Segir Reykjavíkurborg það hafa verið nauðsynlegt, á meðan maðurinn sætti vistun hjá borginni, að viðhafa stöðugt eftirlit og endurmat vegna málefna hans, þar sem hann hafi talist hættulegur sjálfum sér og öðrum og hafi vandi hans farið vaxandi.
Einnig kemur fram að maðurinn hafi verið á endanum færður í sérhæfða öryggisvistun vegna endurtekinna líkamsárása á starfsfólk, sjálfsskaða, brota gegn almenningi og almannahættubrots. Miðlun skráar yfir þessi atvik til félagsmálaráðuneytisins hafi þjónað þeim tilgangi að upplýsa ráðuneytið um versnandi stöðu mála, í samræmi við kröfulýsingu ráðuneytisins og þjónustusamning.
Borgin segir það einnig hafa verið nauðsynlegt að miðla skránni um manninn til ráðuneytisins þar sem það færi með yfirstjórnunar – og eftirlitsheimildir í málaflokknum og því hefði borginni borið lagaleg skylda til þess.
Í úrskurðinum eru einnig reifuð sjónarmið félagsmálaráðuneytisins vegna miðlunar á umræddri atvikaskrá, sem innihélt viðkvæmar persónuupplýsingar um manninn, til héraðssaksóknara.
Þar kemur meðal annars fram að þetta hafi verið í samræmi við lög um vinnslu persónuupplýsinga og verið nauðsynlegt til að íslensk stjórnvöld gætu farið eftir lögum um þjónustu við fatlað fólk og veitt manninum félagslega vernd og til að tryggja almannahagsmuni.
Enn fremur segir að það sé ekki tilgreint í lögum hvaða stjórnvald ætti að reka sérhæfða öryggisvistun fyrir fólk eins og umræddan mann, með fötlun og víðtækar sérþarfir. Í framkvæmd hafi það verið ákæruvaldið sem hafi haft aðkomu að því að finna slíkum einstaklingum vistunarstað.
Reglulega hafi komið upp álitamál um verkaskiptingu í þessum málum milli einstakra ráðherra og ríkis og sveitarfélaga. Á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldna félagsmálaráðuneytisins hafi það unnið að því að leysa vandamál sem koma upp með það að markmiði að þeir einstaklingar sem þurfa á sérhæfðri öryggisvistun að halda, samkvæmt hegningarlögum, fái viðeigandi þjónustu. Ráðuneytið hafi einnig unnið að stefnumótun og framtíðarlausnum í málaflokknum.
Málefni slíkra einstaklinga séu oft sértæk og einstaklingsbundin og þess vegna geti verið nauðsynlegt að stefnumótun taki mið af upplýsingum um einstaklinga og þar af leiðandi hafi verið nauðsynlegt að nota upplýsingarnar við stefnumótun.
Enn fremur segir ráðuneytið hafa verið nauðsynlegt að miðla persónupplýsingum um manninn til héraðssaksóknara þar sem Reykjavíkurborg hafi gefið til kynna að hún vildi hætta að annast öryggisvistun hans. Héraðssaksóknari hafi óskað eftir staðfestingu á þessu og á grundvelli beiðninnar hafi ráðuneytið sent embættinu bréf ásamt atvikaskrá, með viðkvæmum persónuupplýsingum um manninn. Í bréfi ráðuneytisins hafi afstaða Reykjavíkurborgar verið rakin og gerð grein fyrir því mati ráðuneytisins að rétt væri að beina einstaklingum, í stöðu mannsins, í úrræði á vegum heilbrigðisyfirvalda.
Ráðuneytinu hafi borið skylda, samkvæmt lögum, til að deila þessum upplýsingum með héraðssaksóknara þar sem mál mannsins hafi verið til meðferðar í refsivörslukerfinu og að ákæruvaldið hafi aðkomu að því að finna einstaklingum sem dæmdir séu til sérstakrar öryggisvistunar vistunarstað.
Persónuvernd tekur undir það með félagsmálaráðuneytinu að ekki sé kveðið á um það skýrt með lögum hvaða stofnun ber ábyrgð á framkvæmd úrræða eins og maðurinn var dæmdur til vistunar í. Í raun hafi hún þó verið að hluta til á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins og ákæruvaldið hafi sinnt því hlutverki að finna viðeigandi vistunarúrræði.
Persónuvernd tekur einnig undir það að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að miðla persónuupplýsingum um manninn til félagsmálaráðuneytisins á grundvelli laga um persónuvernd þar sem það hafi verið nauðsynlegt vegna skyldu borgarinnar gagnvart manninum, samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk.
Ráðuneytinu hafi síðan verið heimilt að miðla þessum upplýsingum til héraðssaksóknara á grundvelli laga um persónuvernd þar sem það hafi verið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna og stjórnunar- og eftirlitsskyldu ráðuneytisins í málaflokknum.
Enn fremur er það niðurstaða Persónuverndar að miðlunin á persónuupplýsingunum hafi ekki þurft samþykki mannsins þar sem bæði borgin og ráðuneytið hafi miðlað þeim á grundvelli heimilda í lögum um vinnslu persónuupplýsinga.