Samfélag Íslendinga á Tælandi er slegið vegna þarlendrar konu sem hefur ítrekað beitt ofbeldi. Hún réðist á einn Íslending í tvígang og er nú kominn með annan upp á arminn.
Konan er sögð halda til á barnum Puy í borginni Pattaya, sem er vinsæll bar hjá Íslendingum. Pattaya er víðfræg skemmtanaborg, staðsett við ströndina suðaustan við Bangkok. Umræða er um konuna og framferði hennar á samfélagsmiðlasíðu ætlaðri vinum Tælands og varað er við henni.
Nefnt er að þessi kona hafi gert vopnaða árás á eiginmann sinn með byssu. En hann var einnig starfandi sem lögreglumaður. Skaut hún eiginmann sinn sem skaut einnig til baka á konuna. Hafi hún því þurft að fara á sjúkrahús í nokkrar vikur og var gert að greiða sekt fyrir.
Einnig er nefnt að þessi umrædda kona hafi tvisvar sinnum ráðist á íslenskan mann sem hún hafi verið í tygjum við. Í fyrra skiptið hafi hún verið sektuð fyrir vopnaða árás á hann í bæ rétt norðan við Bangkok.
Hin árásin hafi verið gerð á hóteli í borginni Pattaya í desember á síðasta ári. Konan hafi þá brugðið hnífi til þess að ráðast á manninn og ógnað lífi hans.
Hann hafi hins vegar náð að afvopna hana með því að grípa í handlegg hennar með þeim afleiðingum að hún marðist. En þá hafi hún bitið í framhandlegginn á manninum og náð öflugu hreðjataki á honum. Togaði hún fast og sleit hár af pungnum á manninum svo hann var blóðugur eftir.
Íslendingurinn þurfti eftir þessa rimmu að fara á spítala til að fá bæði aðhlynningu og áverkavottorð. Þar næst fór hann niður á lögreglustöð til þess að leggja fram kæru.
Sagt er að nú sé þessi kona komin með annan Íslending upp á arminn. Einnig að hún hafi mikinn áhuga á að flytja til Íslands.