Maður nokkur var sakfelldur, í liðinni viku, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa ekið undir áhrifum amfetamíns og án ökuréttinda á Vínlandsleið í Reykjavík.
Lögreglan stöðvaði akstur mannsins í október síðastliðnum en maðurinn hafði áður verið sviptur ökuréttindum.
Honum var birt ákæra í málinu en var ekki viðstaddur þingfestingu þess og boðaði ekki forföll. Þar af leiðandi var maðurinn sakfelldur.
Maðurinn á talsverðan sakaferil að baki. Hann hefur áður verið sakfelldur fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Árið 2019 var hann dæmdur tvisvar fyrir slíkt athæfi. Í fyrra skiptið var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, en einnig fyrir hraðakstur. Í síðara skiptið í 60 daga fangelsi og þá einnig fyrir akstur eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum. Hann hefur einnig gengist undir lögreglustjórasáttir og tilheyrandi greiðslu sekta vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og hraðakstur.
Á síðasta ári var hann dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir að aka án ökuréttinda og síðasti dómur, á undan þessum, sem hann hlaut var 3 mánaða fangelsi fyrir að aka undir áhrifum áfengis og sviptur ökuréttindum.
Í ljósi sakaferils mannsins þótti hæfilegt í þetta sinn að dæma hann í 4 mánaða fangelsi.