Eins og alþjóð veit eru íbúar á Suðurnesjum án heits vatns um þessar mundir og stefnir í að ástandið vari í viku. Það var því einhverjum íbúðum gleðiefni í morgun þegar heitt vatn rann úr krönum.
Gleðin var þó skammvinn og eru íbúar beðnir um að nota ekki vatnið til daglegra nota. Um er að ræða vatn sem stýrt er inn á lagnakerfið tiil að halda því heit þar til lögnin kemur í lag. Eða eins og segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum:
„Sæl öll. Það eru einhver hús í Reykjanesbæ að fá heitt vatn inn til sín en það sem okkur langar að upplýsa ykkur um er að það er alls ekki heitt vatn til notkunar. Staðan er sú að það er verið að keyra heitu vatni á sérstökum tankbílum til Reykjanesbæjar og er því vatni stýrt inn á lagnakerfið til að halda því heitu. Þetta er gert til að við þurfum ekki að byrja á því að hita lagnakerfið upp er lögnin verður komin í lag. Þetta er eingöngu brota -brota brot af því vatni sem á að renna um kerfið. Afar mikilvægt að nota þetta vatn ekki eins og við gerum til daglegra nota heldur er mikilvægt að við leyfum þessu vatni að renna um kerfið.“