Hjáveitulögnin sem lögð var til að bæta heitavatnslögnina sem rofnaði í eldgosinu fór í sundur um klukkan hálf ellefu í gærkvöld. Ekkert heitt vatn berst lengur til Suðurnesja.
Að sögn HS Orku laskaðist hún væntanlega við hraunrennslið í gærmorgun. Seint í gærkvöld þegar aukið var við vatnsdælingu rofnaði hún endanlega.
„Staðsetningin er undir miðju hrauni, á þeim kafla þar sem það er þykkast, og því útilokað að ráðast í viðgerðir þar,“ segir í tilkynningunni.
Undirbúningur að því að leggja nýja lögn er hafinn og koma Almannavarnir að því ferli. Þetta mun taka einhverja daga og er ekki hægt að nefna tímasetningar í því samhengi.
„Brýnt er að fylgja leiðbeiningu almannavarnar og HS Veitna varðandi viðbrögð í þessum erfiðu og krefjandi aðstæðum.“