Í tilkynningu á Facebook-síðu HS Veitna kemur fram að rof heitavatnslagnarinnar sé þegar farið að segja til sín í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum:
„Við þær aðstæður sem nú eru í hitaveitunni, eftir að hraunrennsli skemmdi hitaveituæðina frá Svartsengi til Fitja, næst ekki að halda fullum þrýstingi í þeim hverfum sem lengst eru frá dælustöð. Hefur það þær afleiðingar í för að á sumum svæðum er þegar farið að bera á minna heitavatns rennsli, svo sem í Garði, Sandgerði, í efri byggðum Keflavíkur, í innri Njarðvík og í Vogum.“
Í nýrri tilkynningu frá Almannavörnum, sem var að berast, kemur fram að Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hafi ákveðið að fara upp á neyðarstig Almannavarna vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum.
Í tilkynningunni er ítrekað það sem áður hefur komið fram um nauðsyn þess að íbúar á Suðurnesjum spari heitt vatn. Um kyndingu með rafmagnsofnum segir eftirfarandi:
„Íbúar geta notað rafmagnsofn en Almannavarnir ítreka að hver eign má aðeins notast við einn rafmagnsofn. Rafkerfið þolir ekki meiri notkun. Ef öll setja ofna í gang í einu getur kerfið slegið út. Því er mikilvægt að íbúar fylgi fyrirmælum og noti aðeins einn rafmagnsofn til kyndingar.“