Erlend kona hefur ritað færslu í Facebook-hópinn Reykjavik, ICELAND, Travel & Vacation. Þar segist hún leitast við að leiðrétta þann misskilning sem hún segist hafa orðið vör við að neysla hvalkjöts sé útbreidd á Íslandi.
Konan segist hafa orðið vör við margar athugasemdir þessa efnis í netheimum. Hún leggur hins vegar áherslu á að þetta sé rangt:
„Gagnstætt því sem margir telja er neysla hvalkjöts hvorki hefðbundin né vinsæl á Íslandi … Aðeins 1,5 prósent Íslendinga borða hvalkjöt reglulega.“
Konan tekur ekki fram hvaðan hún hefur þessar tölur en líklega er hún að vísa í tölur úr könnun sem International Fund for Animal Welfare lét gera meðal Íslendinga árið 2016 en þá sögðust 1,5 prósent aðspurðra kaupa hvalkjöt sex sinnum eða oftar á ári. Vísir greindi frá könnunnni á sínum tíma.
Ljóst er að höfundi færslunnar er mjög annt um velferð hvala. Hún bætir því við að hvalir dreifi kolefni um heimshöfin og séu þess vegna mikilvægir í baráttunni við loftslagsbreytingar. Hún hvetur fólk til að njóta hvala úr hæfilegri fjarlægð en sleppa því að borða þá.
Færslan fær þó misjafnar undirtektir í athugasemdum. Sumir taka undir með konunni en aðrir segjast hafa prófað að borða hvalkjöt og það hafi verið ljúffengt.