Heitt vatn er farið af Keflavíkurflugvelli. Þetta staðfestir Guðjón Helgason samskiptastjóri ISAVIA í samtali við DV. Í bili hefur þetta hins vegar takmörkuð áhrif á starfsemi vallarins.
„Heitavatnslaust er á Keflavíkurflugvelli vegna hrauns sem flætt hefur yfir heitavatnsæð,“ segir Guðjón. „Enn sem komið er hefur slíkt takmörkuð áhrif á starfsemi Keflavíkurflugvelli en við fylgjumst vel með þróun mála og erum vel undirbúin ef grípa þarf til nauðsynlegra aðgerða m.a. til að bregðast við hugsanlegri kólnun í flugstöðinni af völdum heitavatnsleysis.“
Flugvöllurinn er með varaaflstöð fyrir rafmagn.
„Flugfélög og flugþjónustufyrirtæki á vellinum eru upplýst um stöðu mála til að þau geti gripið til viðbragðsaðgerða í sinni þjónustu og á sínum rekstrarsvæðum á flugvellinum ef og þegar þörf verður á,“ segir Guðjón.