Markmiðið segir hann vera að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki og alþjóðlegum risum.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu segir hann að lagt verði til að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði breytt í ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn. Fjármögnun rekstrar verði fyrst og fremst með beinum framlögum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hvers árs í samræmi við þjónustusamning.
„Þetta þýðir að útvarpsgjald verður afnumið. Settar verða skorður við samkeppnisrekstri á auglýsingamarkaði og verður stofnuninni ekki heimilt að stunda markaðsstarfsemi vegna auglýsinga. Ríkisútvarpinu verður aðeins heimilt að birta auglýsingar á grundvelli gjaldskrár sem staðfest hefur verið af ráðherra og birt opinberlega. Óheimilt verður að veita nokkurs konar afslátt af gjaldskrá. Þá er hámarksauglýsingatími á hverri klukkustund fimm mínútur,“ segir Óli Björn.
Um einkarekna fjölmiðla segir hann að í stað beinna ríkisstyrkja sé lagt til að sjálfstæðir fjölmiðlar njóti skattaívilnana sem eru samræmdar og gegnsæjar, þannig að allir sitji við sama borð.
„Frumvarpið gerir ráð fyrir tvenns konar breytingum á skattaumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Annars vegar með undanþágu frá greiðslu tryggingagjalds upp að vissu marki og hins vegar með því að fella niður virðisaukaskatt af áskriftum innlendra fjölmiðla; prentmiðlum, netmiðlum og ljósvakamiðlum. Þessum breytingum er ætlað að styrkja einkarekna fjölmiðla og styðja við sjálfstæði þeirra,“ segir hann í grein sinni.
Óli Björn bendir á að á árunum 2014 til 2022 hafi skattgreiðendur lagt liðlega 49 milljarða króna á föstu verðlagi í rekstur RÚV. Á sama tíma hafi stofnunin aflað sér 26 milljarða í tekjur af samkeppnisrekstri og þá fyrst og fremst af sölu auglýsinga. Hafði RÚV því úr rúmum 72 milljörðum að moða á þessum níu árum.
„Ég læt mig enn dreyma um að ríkið dragi sig með öllu út úr fjölmiðlarekstri. Með framgangi frumvarpsins rætist sá draumur ekki en umhverfi fjölmiðla verður a.m.k. nokkuð heilbrigðara. En eftir stendur þversögnin að ríkið – í frjálsu samfélagi – stundi miðlun frétta og upplýsinga og taki að sér það hlutverk að veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald.“