Réttarmeinastjóri í Clayton sýslu í Georgíu fylki í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að afhöfðun ungabarns í fæðingu á síðasta ári hafi verið manndráp. Reynt var að hylma yfir afhöfðunina með því að tilla höfðinu á búk barnsins og vefja þétt í kring.
Blaðið People greinir frá þessu.
Í gær, þriðjudaginn 6. febrúar, gaf réttarmeinastjórinn út þá yfirlýsingu að atvik tengt hinum látna nýbura Treveon Isaiah Taylor Jr. þann 10. júlí síðastliðinn hafi verið manndráp. Móðir og faðir barnsins, Jessica Ross og Treveon Isaiah Taylor Sr., hafa þegar lagt fram kæru gegn sjúkrahúsinu Southern Regional Medical Center í bænum Riverdale í Georgíu vegna vanrækslu og svika.
Ross var komið þangað í flýti þann 9. júlí eftir að hún missti legvatnið. En þetta var fyrsta barn hennar og barnsföður hennar.
Í fæðingunni festust axlir barnsins í fæðingarveginum og ljóst var að Ross gæti ekki fætt barnið með eðlilegum hætti. Keisaraskurður var ekki reyndur heldur var togað í barnið sem lifði fæðinguna ekki af.
Í kærunni segir að fæðingarlæknirinn Tracey St. Julian hafi notað of mikið togafl á höfuðið og ekki hirt um heilsu barnsins. Einnig að hann hafi ekki hugað að því að gera keisaraskurð í tæka tíð. Þetta hafi valdið því að barnið afhöfðaðist og lést.
Höfuð barnsins var tekið út um fæðingarveginn án þess að foreldrarnir vissu af því en búkur barnsins var sóttur með keisaraskurðaðgerð.
Að sögn foreldranna reyndi starfsfólk spítalans að fá þau ofan af því að krefjast krufningar á líki barnsins. Það var ekki fyrr en Ross var útskrifuð af spítalanum sem þau komust að því hvað hefði komið fyrir.
Þegar þau vildu sjá barnið og halda á því var það þétt vafið í teppi og höfðinu tyllt á búkinn. Telja þau að þetta hafi verið gert til þess að reyna að fela hvað hefði komið fyrir. Það var starfsfólk útfararstofunnar, Willie A. Watkins Funeral Home, sem upplýsti um að barnið hafði verið afhöfðað.
„Þetta olli samstundis mikilli tilfinningalegri og andlegri vanlíðan fyrir þau, sem þau munu líklega þurfa að glíma við alla ævi,“ segir í kærunni.
Að sögn Cory Lynch, lögmanns foreldranna, voru þau mjög spennt að eignast sitt fyrsta barn. Allt hefði gengið eðlilega fyrir sig á meðgöngunni. Allt hefði hins vegar breyst í martröð þegar þau komu á Southern Regional Medical Center sjúkrahúsið þennan umrædda dag.
Lögreglan segir að málið sé ekki í þeirra höndum lengur. Það sé saksóknara að ákveða hvort að læknirinn St. Julian verði ákærður.
Í yfirlýsingu spítalans segir:
„Hugur okkar og bænir eru hjá fjölskyldunni og öllum sem þessi hræðilegi atburður snerti. Bænir okkar eru einnig hjá staðföstum læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki Southern Regional Medical Center sem hlúðu að sjúklingnum.“
Þetta er ekki í eina skiptið sem barn hefur verið afhöfðað með of miklu álagi í fæðingu. Árið 2015 voru læknir og hjúkrunarfræðingur í Indlandi handtekin eftir afhöfðun barns í erfiðri fæðingu.
Í frétt Morgunblaðsins um málið segir að þau hefðu notað töng og snæri sem þau bundu við fætur barnsins til þess að draga það út úr móðurinni. Þá slitnaði höfuðið af barninu.
Læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn flúðu vettvang en voru handtekin tveimur dögum seinna. Þurfti móðirin að gangast undir aðgerð til þess að láta fjarlægja höfuð barnsins sem var enn fast inni í henni.