Landsréttur hefur fellt úr gildi frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sýnar gegni Jóni Einar Eysteinssyni. Sýn telur Jón Einar hafa streymt sjónvarpsefni fyrirtækisins ólöglega á Spáni.
Málinu var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. desember síðastliðinn. Þótti stefnan of óskýr og málsástæðum og kröfum ruglað saman í stefnu.
Í dómi Landsréttar, sem féll í gær 6. febrúar, segir að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði það verið lengi látið átölulaust að vísað væri með almennum hætti til þeirrar háttsemi sem stefnandi teldi refsiverða í kröfugerðum einkarefsimála. Krafan væri ekki háð slíkum annmörkum að ekki væri unnt að dæma í málinu.
Samkvæmt stefnu Sýnar hefur Jón Einar streymt læstum sjónvarpsstöðvum frá árinu 2021 í gegnum síðuna www.iptv-ice.com og rukkað gjald fyrir. Þess er krafist að Jón Einar upplýsi um bókhald sitt svo hægt sé að sjá hversu mikið hann hafi hagnast á þessu í gegnum árin.
Einnig er þess krafist að Jón Einar verði dæmdur til refsingar og að viðurkennd verði skaðabótaskylda á hendur honum vegna dreifingarinnar. Að mati Sýnar hefur Jón Einar valdið fyrirtækinu verulegum fjárhagslegum skaða.
Jón Einar hefur verið búsettur á Spáni undanfarin ár en er með skráð heimili í Mosfellsbæ. Hann hefur auglýst þjónustu sína í gegnum ýmsar samfélagsmiðlagrúbbur, svo sem „Íslendingar á Spáni“ og „Golfspjallið“ á Facebook þar sem eru þúsundir meðlima.
Í frétt Vísis frá því í maí á síðasta ári, þegar gert var grein fyrir stefnunni, var rætt við Jón Einar um málið. Hafnaði hann því að hafa makað krókinn á starfseminni og sagði þetta meira í ætt við góðgerðastarf. Hann væri að hjálpa gamla fólkinu á Spáni að ná íslensku stöðvunum, aðallega RÚV og erlendum stöðvum. Fleiri væru að bjóða sambærilega þjónustu.
Þá hafnaði hann því að starfsemin væri eins og lögmenn Sýnar lýstu í stefnunni. Hann kaupi búnað og setji hann upp fyrir fólk, fyrir þá vinnu rukki hann pening.
Næst á dagskrá er að Héraðsdómur Reykjavíkur taki málið til efnismeðferðar. Hins vegar er Jóni Einari ekki gert að afhenda ýmis gögn eins og Sýn hafði krafist.
Málskostnaður var felldur niður í málinu.