Óvíst er hvort fleiri hafi smitast en mislingar eru mjög smitandi veirusjúkdómur sem getur verið hættulegur sumum einstaklingum. MMR-bóluefnið veitir 95% vörn gegn mislingum en þrátt fyrir það eru dæmi um að óbólusettir einstaklingar séu úti í þjóðfélaginu.
Morgunblaðið fjallar í dag um mislingafaraldra hér á landi á árum áður og er óhætt að segja að mislingar hafi leikið landsmenn grátt á árum áður þegar bóluefni voru ekki komin til sögunnar.
Árið 1846 létust til dæmis 3.300 einstaklingar hér á landi af þeim rúmlega 58 þúsund sem hér bjuggu. Annar faraldur geisaði árið 1882 og létust hátt í 2000 Íslendingar yfir sumarmánuðina það ár, stærstur hluti börn undir fjögurra ára.
Í samtali við Morgunblaðið segir Magnús að mislingar geti leikið barnshafandi konur og börn grátt.
„Aðrir ónæmisbældir geta fengið andstyggilegar sýkingar og ýmsir skelfilegir fylgikvillar geta fylgt þessari veirusýkingu. Hún getur lagst á taugakerfið sem dæmi og fólk getur fengið króníska mislinga. Það er sem betur fer sjaldgæft en ömurlegt þegar það gerist,“ segir Magnús við Morgunblaðið og segir að tækifæri til að útrýma mislingum hafi ekki verið nýtt.
„Margvíslegar ástæður eru fyrir því að við ættum að vera búin að útrýma mislingum á heimsvísu. Þetta er dæmi um sjúkdóm þar sem við erum með mjög gott bóluefni og engan hýsil í náttúrunni annan en manninn. Fræðilega séð höfum við allar forsendur fyrir því að útrýma mislingum en það hefur því miður alls ekki tekist. Frekar hefur gengið á afturfótunum síðustu ár ef eitthvað er og það er eiginlega sorglegt að við skulum þurfa að takast á við þetta í dag,“ segir Magnús við Morgunblaðið í dag þar sem ítarlega er fjallað um málið.