fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

„Ég er hræddur um að margir hafi leitað í flöskuna eða fallið frá langt um aldur fram“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. febrúar 2024 09:00

Eymundur Eymundsson. Skjáskot af vef Vísis.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér leið best í mínu herbergi þar sem myrkur var en leið samt ömurlega að geta ekki sagt að mér liði illa þar sem ég var hræddur við dómhörku að lítið yrði gert úr minn vanlíðan.“

Þetta segir Eymundur Eymundsson sem vakið hefur athygli hér á landi fyrir að opna á umræðu um félagsfælni. Eymundur þekkir félagsfælni af eigin reynslu en hann hefur áður lýst því að hann verið orðinn 38 ára þegar hann áttaði sig á hvað amaði að honum og fór þá að vinna í sínum málum.

Kallar eftir meiri virðingu

Í grein sem Eymundur skrifar og birtist á Vísi í morgun kallar hann eftir meiri virðingu og aðgerðum um félagsfælni og vanlíðan barna og ungmenna.

„Mig langar að leyfa ykkur að skyggnast í líf unglings sem glímir við mikla félagsfælni og hvaða afleiðingar geta orðið ef ekkert er að gert. Við vitum ansi margt í dag sem við vissum ekki áður og það hlýtur að vera öllum til góðs að efla forvarnir í grunn- og framhaldsskólum landsins. Ég var í mörg ár með fyrirlestra í grunn- og framhaldsskólum landsins um félagsfælni sem ég hef lifað með í 45 ár. Það er gott að hafa getað nýtt persónulega reynslu til góðs en börn og ungmenni sem glíma við mikla félagsfælni þurfa að fá hjálp strax í æsku annars erum við alltaf að taka á afleiðingum,“ segir Eymundur sem lýsir svo eigin reynslu.

Viðkvæmni og reiði yfir eigin líðan

„Ég var barn sem byrjaði að finna fyrir ótta strax í grunnskólagöngu og sá ótti varð að enn meiri hræðslu og skömm um 12 ára aldur. Mig langaði helst ekki að mæta í skólann nema í leikfimi og í íþróttum en þar fann ég mig þótt mér liði ekki vel. Ég átti erfitt með einbeita mér og erfitt með að læra og maður verður óframfærinn. Það er nefnilega erfitt að eiga við taugakerfið og tilfinninganæmi er mikið. Félagsfælni fylgir mikil viðkvæmni og reiði yfir eigin líðan og það er erfitt að eiga í félagslegum samskiptum og segja sína skoðun við annað fólk.“

Eymundur kveðst hafa upplifað neikvæðar hugsanir og að vilja ekki lifa lengur. Honum leið best í myrku herbergi en samt ömurlega yfir að geta ekki tjáð sig um eigin vanlíðan af ótta við dómhörku.

„Mig langaði að geta tekið þátt með bekkjarfélögum í stað þess að leika trúð svo enginn myndi sjá mína vanlíðan sem var í minni sál. Í dag eigum við að vita betur og börn framtíðarinnar eiga skilið þá hjálp sem þau þurfa í stað afleiðinga,“ segir hann og bætir við að ekki hafi þekkst áður fyrr að tala um sína vanlíðan. Ekki hafi verið annað í boði en að rífa sig upp. „Ég er hræddur um að margir hafi leitað í flöskuna eða fallið frá langt um aldur fram,“ segir hann.

Hefur þurft að fylgja nokkrum sem fallið hafa frá

Eymundur segir að mikil einangrun, að eiga erfitt með félagsleg tengsl og að forðast flestar aðstæður; þunglyndi, vímuefnamisnotkun, sjálfsvíg, léleg sjálfsmynd og lítið sem ekkert sjálfstraust sé bara lítill hluti afleiðinga félagsfælni. Hann segist lifa með sinni félagsfælni og er þakklátur fyrir að þurfa ekki að skammast sín fyrir það.

„Því miður hef ég þurft að fylgja nokkrum sem hafa fallið frá og aðrir sem glíma við vímuefnamisnotkun. Ég kalla bara eftir meiri virðingu og aðgerðum um félagsfælni og vanlíðan barna og ungmenna og þar geta fjölmiðlar m.a. haft meiri áhrif.“

40 þúsund Íslendingar

Grein Eymundar birtist í kjölfar greinar sem Sóley Dröfn Davíðsdóttir, yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina, skrifaði í gær um félagsfælni. Sagði hún meðal annars að á næstu mánuðum verði fjallað betur um félagsfælni á samfélagsmiðlum Kvíðameðferðarstöðvarinnar og fræðsluerindi verði haldin fyrir almenning. Sagði Sóley að félagsfælni væri ein algengasta kvíðaröskunin og hrjái um 10% fólks, sem samsvarar 40 þúsund Íslendingum.

„Félagsfælnir trúa því oft að vandinn sé hluti af þeirra persónuleika og vita ekki alltaf að um algenga kvíðaröskun sé að ræða sem ráða megi bót á. Hugræn atferlismeðferð er hvað mest rannsakaða meðferðarúrræðið og ber þann árangur að að 80% fólks mælist umtalsvert betra eða innan eðlilegra marka á félagskvíða eftir aðeins tíu tíma meðferð. Er þar unnið markvisst að því að uppræta viðbrögð sem eiga þátt í að viðhalda vandanum. Sem betur fer kemur fólk sífellt yngra til meðferðar en áður var, en þó er aldrei of seint að leita sér aðstoðar og öðlast nýtt og kvíðaminna líf,“ sagði Sóley meðal annars í grein sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar
Fréttir
Í gær

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis