Ákæra hefur verið birt á hendur Shokri Keryo fyrir tilraun til manndráps, hættubrot og eignaspjöll vegna máls sem kallað hefur verið árásin við Silfratjörn. Atburðurinn átti sér stað aðfaranótt fimmtudagsins 2. nóvember 2023, á gatnamótum Skyggnisbrautar og Silfratjarnar í Reykjavík. Ákærði er sagður hafa skotið fjórum skotum í átt að fjórum mönnum, með óþekktu skotvopni með 9 mm hlaupi.
Þeir sem urðu fyrir árásinni stóðu utandyra við íbúðarhúsnæði. Skotin höfnuðu í fæti eins mannsins, í bíl sem stóð fyrir framan íbúðarhúsið og í húsinu. Maðurinn sem varð fyrir skoti „hlaut sár á hægri sköflung, eitt sár framhliðlægt á fjærhluta sköflungssvæðis hægra megin og annað hinum megin á sköflungssvæðinu, brot á sköflungsbeini og mar sjáanlegt hliðlægt á sköflungi,“ eins og segir í ákæru.
Afturrúða bílsins brotnaði og afturhleri dældaðist. Rúða í búð brotnaði þar sem fjögurra manna fjölskylda var sofandi innandyra. Segir í ákærunni að ákærði hafi með háttsemi sinni stofnað lífi og heilsu þeirra sem fyrir urðu, sem og íbúum hússins, í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.
Sá sem fékk skot í fótinn gerir miskabótakröfu upp á 3,5 milljónir króna. Tveir aðrir af fjórmenningunum sem ákærði beindi skotum að gera kröfur upp á annars vera 1,5 milljónir og hins vegar 2 milljónir.
Ótilgreind kona gerir kröfu um miskabætur upp á eina milljón króna.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, þriðjudag.