fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fréttir

Katrín viðurkennir að hafa verið ónákvæm í svörum

Ritstjórn DV
Mánudaginn 5. febrúar 2024 17:00

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í dag spurði Logi Már Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra  meðal annars um rétt Palestínumanna sem búa hér á landi á því að fá fjölskyldur sínar, sem hafa fengið dvalarleyfi, til sín og aðkomu íslenskra stjórnvalda að því að aðstoða fjölskyldurnar við að komast hingað frá Gaza. Í svari sínu viðurkenndi Katrín að hafa áður viðhaft ónákvæmt orðalag þegar kemur að aðstoð hinna norðurlandanna við fjölskyldusameiningar Palestínumanna.

Í kvöldfréttum RÚV síðastliðinn föstudag kom fram að um 100 íbúar Gaza hafa fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölkyldusameiningar en að íslenska ríkið hafi lítið gert til að aðstoða fólkið við að komast til landsins. Þessu hefur verið mótmælt meðal annars með tjaldbúðum Palestínumanna, sem bíða eftir að fá fjölskyldumeðlimi til sín, á Austurvelli. Í fréttinni kom fram að Katrín hafi sagt í Kastljósi RÚV 9. janúar síðastliðinn að hin norðurlöndin aðstoðuðu aðeins eigin ríkisborgara við að komast frá Gaza. Guðrúnn Hafsteindsdóttir dómsmálaráðherra hafi haldið því fram í viðtali við Mbl.is, 29. desember 2023, að norðurlöndin aðstoðuðu ekki við fjölskyldusameiningar.

Fréttastofa RÚV spurðist fyrir um það hjá stjórnvöldum á norðurlöndum hvort að þau aðstoðuðu Palestínumenn sem hefðu hlotið dvalarleyfi í viðkomandi landi, á grundvelli fjölskyldusameiningar, við að komast frá Gaza. Sænsk stjórnvöld hafa aðstoðað 550 manns við að komast frá Gaza. Þar á meðal eru sænskir ríkisborgarar og fólk með dvalarleyfi í Svíþjóð. Norsk stjórnvöld hafa aðstoðað 270 manns við að komast frá Gaza en af þeim eru 38 með dvalarleyfi í Noregi eða foreldrar barna með norskt ríkisfang. Stjórnvöld í Finnlandi gera ekki greinarmun á því hvort fólk sem aðstoðað er við að komast frá Gaza er með ríkisborgararétt eða dvalarleyfi. Dönsk stjórnvöld hafa í undantekningartilvikum aðstoðað nána fjölskyldumeðlimi barna með danskan ríkisborgararétt við flótta frá Gaza séu þeir í fylgd með viðkomandi börnum.

Segist ekki hafa farið með rangt mál

Miðað við svör stjórnvalda á norðurlöndum við fyrirspurnum RÚV virtust því dómsmálaráðherra og forsætisráðherra ekki hafa farið algjörlega með rétt mál.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra gerði athugasemd við frétt RÚV í færslu á Facebook-síðu sinni. Í færslunni viðurkennir hún þó að hafa viðhaft ónákvæmt orðalag í viðtalinu við Mbl.is 29. desember en segist hafa leiðrétt það í viðtali við sama fjölmiðil 4. janúar síðastliðinn:

„Þetta var ónákvæmt orðað hjá mér og 4. janúar leiðrétti ég ummæli mín í viðtali við mbl.is „að ég hafi ekki verið að tala um „rétt til fjölskyldusameiningar“ sem byggist á lögum, heldur hvort yfirvöld séu með virkum hætti að sækja fjölskyldur inn á stríðshrjáð svæði á borð við Gaza á grundvelli þeirra réttinda.““

Guðrún gerir athugasemd við að RÚV hafi ekki minnst á þessa leiðréttingu í fréttinni:

„Ég ítreka því hér að Norðurlöndin hafa aðstoðað sína ríkisborgara, fjölskyldur þeirra og dvalarleyfishafa sem höfðu dvalarleyfi fyrir 7. október og höfðu áður dvalið í viðkomandi landi. Fjölskyldusameiningar hafa almennt ekki verið veittar frá 7. október á Norðurlöndunum. Þetta kom fram á vef stjórnarráðsins þann 17. janúar sl. og um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum, m.a. á RÚV.“

Sagðist dómsmálaráðherra telja eðlilegt að RÚV fjarlægði fréttina af vef sínum og birti leiðréttingu í fréttatíma í sjónvarpi og á vef sínum. Fréttin er enn aðgengileg, í upptöku af umræddum fréttatíma, á vef RÚV og í samtali við Samstöðina segir Heiðar Örn Sigurfinnson fréttastjóri að RÚV standi við fréttina og að staðan sé sú að íslensk stjórnvöld aðstoði ekki við fjölskyldusameiningar frá Gaza en norðurlöndin geri það.

Viðurkennir ónákvæmni

Í vefútgáfu fréttar RÚV  hefur því verið bætt við að Guðrún hafi leiðrétt orð sín við Mbl.is, frá 29.desember, við sama miðil 4. janúar með því að hún hafi ekki átt við rétt til fjölskyldusameiningar heldur hvort yfirvöld væru að sækja fjölskyldur á stríðshrjáð svæði á grundvelli hennar. Slíku fylgi ekki skylda íslenskra stjórnvalda til að sækja fólk til Gaza. Með því væru íslensk stjórnvöld að leggja í leiðangur sem ekkert annað nágrannaríkjanna hefði gert. Norðurlöndin hafi fyrst og fremst aðstoðað sína ríkisborgara og fjölskyldur þeirra.

Í vefútgáfunni hefur því einnig verið bætt við að Katrín hafi í viðtali við Kastljós 22. janúar síðastliðinn sagt að Útlendingastofnun hafi forgangsraðað umsóknum frá Gaza um fjölskyldusameiningu og afgreitt þær. Til skoðunar hafi verið hvort íslensk stjórnvöld geti aðstoðað fólk að komast út af Gaza, það sé ekki einföld aðgerð. Katrín hafi einnig sagt að eftir því sem hún kæmist næst hafi norðurlöndin flutt sína ríkisborgara og dvalarleyfishafa frá Gaza, sem hafi verið veitt fyrir 7. október 2023, og verið búsettir í þeim löndum áður á brott frá Gaza. Hún hafi sagst ekki ætla að leggja mat á þær upplýsingar.

Í svari sínu við fyrirspurn Loga Más Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, viðurkenndi Katrín að hún hefði áður verið ónákvæm í svörum þegar kemur að þessu máli:

„Það verður að segjast eins og er að ég hef sjálf gerst ónákvæm í mínum svörum eins og ég hef bent á eftir á, þ.e. fyrst fékk ég þær upplýsingar að fyrst og fremst væri verið að aðstoða ríkisborgara. Síðar kom það fram að það væri einnig verið að aðstoða dvalarleyfishafa og fyrst og fremst þá dvalarleyfishafa sem áður hefðu búið í löndunum, en það er líka um fleiri dvalarleyfishafa að ræða.“

„Þannig að það hefur verið samtal, en það hefur ekki verið samvinna milli allra Norðurlanda á þessu svæði, við höfum ekki verið aðilar að henni en það hefur verið samvinna milli einstakra Norðurlanda. En mér finnst rétt að benda á að þar hafa Noregur og Svíþjóð aðstoðað umtalsverðan fjölda en Danmörk og Finnland langtum færri.“

Katrín sagði að lokum mikilvægt að það liggi fyrir sem fyrst hvað sé hægt að gera til að aðstoða Palestínumenn sem hlotið hafa dvalarleyfi hér á landi en eru enn á Gaza.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Baldri tókst að skjóta föður sínum ref fyrir rass og kom sér rækilega á kortið

Baldri tókst að skjóta föður sínum ref fyrir rass og kom sér rækilega á kortið
Fréttir
Í gær

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“