Sigríður Hrund Pétursdóttir, athafnakona og frambjóðandi til embættis forseta Íslands, birti í morgun atvinnuauglýsingu þar sem hún auglýsir eftir manneskju til að koma að samkiptamálum fyrir framboðið. Óhætt er að segja að auglýsingin sé í hástemmdari kantinum og Vísir birti frétt um hana sem Sigríður sagði ekki að öllu leyti rétta.
Í auglýsingunni segir að leitað sé eftir „Samskiptaskapara til Sigurvegferðar.“
Spurt er hvort viðkomandi tengi við eftirfarandi:
„Kraft og taktfestu í verkefnum, Sköpunargleði, Óttaleysi eða Hugrekki, Lýðræði, Tjáningarfrelsi, Jafnræði, Mildi og Styrk.“
Ef svo er geti viðkomandi og framboðið mögulega átt samleið. Kostur sé ef umsækjandinn hafi:
„Framúrskarandi viðhorf með kímniblik í auga“ og „einstaka lipurð í textagerð á íslensku sem ensku.“
Þegar kemur að textagerð er sérstaklega tekið fram að ætlast sé til þess að umsækjandi hafi hana á valdi sínu en leiti ekki til gervigreindar til að sjá um ritsmíðarnar.
Einnig er sagt æskilegt að viðkomandi hafi:
„Haldbært tengslanet sem hæfir verkefninu eða fær um að skapa það hratt.“
Síðasti æskilegi eiginleikinn í fari væntanlegra umsækjenda er:
„Grjót í maganum sem haggast ekki þó öldugangur aukist um stundarsakir.“
Áður hafði Hödd Vilhjálmsdóttir almannatengill yfirumsjón með samkiptamálum vegna framboðs Sigríðar. Hödd sleit hins vegar samstarfinu þar sem hugmyndir þeirra um verkefnið voru of ólíkar. Í upprunalegri útgáfu fréttar Vísis í morgun kom fram að Sigríður væri með auglýsingunni að leita að samskiptastjóra. Sigríður leiðrétti það hins vegar snarlega á Facebook síðu sinni og lýsti því um leið hvaða augum hún lítur þessa atvinnuauglýsingu framboðs síns:
„Heil og sæl Vísir – takk fyrir góða frétt um þessa einstöku atvinnuauglýsingu. Vinsamlega lagfærið orðalagið „Sigríður er án samskiptastjóra“ en það er ekki rétt með farið og hefði verið auðstaðfest ef haft hefði verið samband við mig að fyrra bragði. Njótum helgarinnar og dýrmætra daga.“
Sigríði varð að ósk sinni og frétt Vísis hefur nú verið leiðrétt. Þar kemur fram að Sigríður sé ekki án samskiptastjóra en með auglýsingunni sé verið að leita að manneskju í nýja stöðu.
Fréttin hefur verið uppfærð