Ólafur var borgarstjóri um skamma hríð árið 2008 og var borgarfulltrúi lengi vel.
Hann skrifar grein í Morgunblaðið þar sem hann óskar Einari velgengni í starfi en hvetur hann til að huga að nokkrum atriðum meðan hann gegnir þessu mikilvæga starfi.
„Einar Þorsteinsson hefur nú í ársbyrjun 2024 tekið við embætti borgarstjóra í Reykjavík. Hann er 45 ára að aldri, stjórnmálafræðingur að mennt og landsþekktur fjölmiðlamaður. Hann hefur nú verið borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður borgarráðs í 18 mánuði,“ segir Ólafur í grein sinni og heldur áfram:
„Í ljósi framanskráðs vil ég koma á framfæri við nýjan borgarstjóra góðum óskum vegna hins nýja og ábyrgðarmikla starfs hans og heilræðum sem ég tel að skipti meginmáli. Flýting Sundabrautar og öryggi Reykjavíkurflugvallar eru þar efst á blaði,“ segir hann.
Ólafur segir að Sundabraut eigi að vera á brú en ekki í göngum eins og sumir hafa kallað eftir. „Mikilvægt er einnig að greiða fyrir umferð í borginni og að láta almenningssamgöngur og einkabílaumferð vinna saman en ekki hvort gegn öðru,“ segir hann.
Hann gerir Reykjavíkurflugvöll svo að umtalsefni í grein sinni.
„Varðandi öryggi Reykjavíkurflugvallar þarf nú þegar að hefjast handa við skógarhögg á hávöxnum greniskógi í Öskjuhlíð sem ógnar lendingu og flugtaki á A/V-braut vallarins. Fresta ber og endurskoða stórkarlalegar byggingaframkvæmdir og landfyllingar í svonefndum „Nýja Skerjafirði“. Ekki má heldur vanmeta hættuna sem stafar af einhvers konar borgarlínu- og göngubrú yfir Skerjafjörð, vegna byggingakrana og stórtækra vinnuvéla við enda suðurbrautar vallarins, sem munu ógna flugöryggi þannig að jafnvel þurfi að loka N/S-brautinni á meðan þessar allt annað en brýnu framkvæmdir standa yfir,“ segir hann.
Hann endar skrif sín á þessum orðum.
„Ég bið þig, borgarstjóri, að taka þessar ábendingar mínar til skoðunar, en þær eru settar fram af heilindum og mótast mjög af bakgrunni mínum sem heimilislæknir í borginni og héraðslæknir í dreifbýli um áratugaskeið. Mikilvægt er að þér gangi vel í starfi. Það eru almannahagsmunir.“