Það er ekki einsdæmi að starfsfólki lögreglunnar og réttarvörslukerfisins sé hótað en undanfarið hefur verið fjallað um hótanir gegn lögreglumönnum og skemmdarverk sem unnin hafa verið á eigum þeirra.
Í ákæru á hendur manninum, sem hefur haft í hótunum við Helga, kemur fram að hann hafi á tíu daga tímabili í janúar 2021 sent Helga tölvupósta sem innihéldu líflátshótanir og í sumum tilfellum hafi hótanirnar einnig beinst gegn fjölskyldu Helga. Einnig kemur fram að hann hafi komið í afgreiðslu ríkissaksóknara í mars 2022 og haft uppi ítrekaðar hótanir um að gera út af við Helga.
Í dómi, sem Héraðsdómur Reykjaness kvað upp yfir manninum í júní 2022, segir að meðal þeirra skilaboð sem Helga bárust hafi ein hljóðað svo: „Even you go out now and withdraw the papers from me,
you and your family will die.“
Morgunblaðið hefur eftir Helga að líklega megi rekja þessi skilaboð til þess að hann hafi sem vararíkissaksóknari staðfest niðurfellingu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í máli þar sem viðkomandi var kærandinn.
Þegar maðurinn kom á skrifstofu ríkissaksóknara í mars 2022 voru vitni að samskiptum hans við Helga. Í fyrrgreindum dómi kemur fram að vitnin hafi heyrt manninn segja: „I will kill you“ við Helga.