Hæstiréttur hefur staðfest sjö ára fangelsisdóm yfir barnaníðingnum Brynjari Joensen Creed. Hann var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn ólögráða stúlkubörnum.
Vorið 2022 var Brynjar dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness en sá dómur var þyngdur um eitt ár í Landsrétti í marsmánuði í fyrra. Dómur Hæstaréttar féll í dag, 31. janúar.
Brynjar var handtekinn eftir tálbeituaðgerð í nóvember árið 2021 vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart tveimur stúlkum. Var lagt hald á síma og tölvur þar sem fannst fjöldi myndskeiða og ljósmynda sem sýndu ungmenni á klámfenginn hátt. Einnig fundust þar samskipti af kynferðislegum toga við stúlkur sem náðu mörg ár aftur í tímann.
Nýtti Brynjar sér samfélagsmiðilinn Snapschat til að eiga samskipti við stúlkurnar. Í dóminum segir:
„Ákærði gaf brotaþolum kynlífshjálpartæki en það kvaðst hann hafa gert í tengslum við svokallaðan „stigaleik“ þar sem stig voru gefin fyrir kynferðislegar athafnir og voru stigin fleiri eftir því sem hinar kynferðislegu athafnir urðu grófari. Brotaþolar munu þá hafa fengið stig í samræmi við grófleika þeirra mynda sem þær sendu ákærða.“
Hafi hann fengið þrettán ára stúlku til þess að stinga fingur upp í endaþarm sinn og senda myndir af því. Einnig tvær þrettán ára stúlkur til þess að hafa kynmök með gervilim og senda honum myndir. Þá hafi hann fengið fjórtán ára stúlku til þess að fróa sér með kynlífshjálpartæki sem hann gaf henni, taka myndir og senda sér.
Dómurinn náði aðeins til hluta þeirra brota sem Brynjar er sakaður um. Alls er Brynjar grunaður um að hafa brotið á á þriðja tug stúlkna undir 15 ára aldri en eins og greint hefur verið frá í fréttum eru þau mál á borði héraðssaksóknara.
Þó að þyngd fangelsisdómsins væri óröskuð taldi Hæstiréttur ekki rétt að skilgreina glæpi Brynjars sem nauðgun eins og Landsréttur hefði gert. Saksóknari gerði það heldur ekki að neinu aðalatriði í málinu en krafðist þess að dómurinn væri óraskaður.
„Brot hans beindust gegn mikilvægum verndarhagsmunum, ungum stúlkum á viðkvæmu aldurs- og þroskaskeiði. Í samskiptum sínum við stúlkurnar misnotaði hann sér gróflega ungan aldur þeirra og þroskaleysi og skeytti engu um afleiðingar brotanna. Brot hans eru svívirðileg og á hann sér engar málsbætur,“ segir í dóminum.