Sagt var frá málinu í gær og ræddi Morgunblaðið við þingmenn sem voru misánægðir með nýju aðstöðuna. Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, sagðist til dæmis efast um að hann muni nota sína skrifstofuaðstöðu mikið.
„Útsýnið úr minni skrifstofu er bara hvítur veggur, ég gæti eins verið lokaður inni á Litla-Hrauni,“ sagði hann.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sigmund Davíð og segir hann að honum lítist afleitlega á þetta – byggingin sé grá og niðurdrepandi.
„Ég sit hér á skrifstofunni minni gömlu þar sem húsgögnin hafa horfið eitt af öðru sem og ýmsir aðrir munir. Ég leysti það að hluta með því að sækja gamla sófasettið hennar ömmu og þar sit ég núna. En svo tóku þeir málverkin mín sem mér þótti skrýtið, en það má víst ekki hengja upp myndir í nýja húsinu. Síðan hvarf eitt og annað og nú síðast skrúfuðu þeir fyrir Internetið. Næst verður það væntanlega rafmagn og hiti og svo vatn. Svo verð ég borinn út,“ segir Sigmundur við Morgunblaðið.