Samkvæmt heimildum DV er sex ára barn sem lét lífið í íbúðarhúsnæði að Nýbýlavegi í nótt af erlendum uppruna. Barnið er drengur og liggur fyrir að faðir drengsins er frá Írak. Kona er í haldi lögreglu vegna láts barnsins og gengst undir geðmat í dag.
Harmi sleginn faðir drengsins birti kveðju til látins sonar síns á samfélagsmiðlum í dag þar sem hann bað æðri máttavöld um að miskunna syni sínum. Faðirinn er skráður til heimilis í húsinu. Hann er rétt tæplega fimmtugur að aldri.
Fjórar íbúðir eru í umræddu húsi og er búið í þeim öllum en íbúafjöldi í heild er óljós.
DV fékk fyrst upplýsingar um málið snemma í morgun, skömmu eftir lögregluaðgerðir á vettvangi. Tveir sjúkrabílar komu að vettvangi um hálfátta-leytið. Í kjölfarið komu fjórir ómerktir lögreglubílar og tveir merktir. Gulur borði var strengdur um húsið en tekinn burtu löngu fyrir hádegi.
Lögregla varðist allra frétta af rannsókninni en staðfesti að aðgerðin hefði átt sér stað. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknarsviði lögreglunnar, tjáði DV laust fyrir kl. 11 í morgun að aðgerðum væri lokið en rannsókn stæði yfir. Hann vildi þá ekki tjá sig um atburðinn. Íbúar í nágrenninu greindu DV frá því að þeir hefðu orðið varir við ferðir sjúkrabíla að húsinu í morgun en urðu að öðru leyti einskis varir um atburðinn.
Síðdegis í dag birti lögreglan síðan tilkynningu um málið þar sem fram kemur að einn einstaklingur sé í haldi lögreglu vegna málsins.
Tilkynningin var svohljóðandi:
„Andlát sex ára barns í Kópavogi er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en tilkynning um málið barst embættinu um hálfáttaleytið í morgun.
Lögreglan hélt þegar á vettvang, en barnið var látið þegar að var komið. Einn einstaklingur er í haldi vegna málsins.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.“
RÚV greindi frá því að einstaklingurinn í haldi lögreglu væri kona. Einnig segir að hún gangist undir geðmat í dag.
Fréttinni hefur verið breytt