Fimm útsendarar héraðssaksóknara eru staddir í Namibíu vegna Samherjamálsins. Eru þeir bæði að safna gögnum vegna rannsóknar hérna heima sem og að aðstoða namibísks stjórnvöld við sín mál.
Morgunblaðið greindi frá því á fimmtudag að fimmmenningarnir væru í Namibíu. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari vildi hins vegar ekki tjá sig um tilgang ferðarinnar.
Namibíska dagblaðið The Namibian greindi frá því í gær að útsendararnir væru í landinu til þess að safna gögnum vegna Samherjamálsins og að aðstoða namibísks stjórnvöld. Þetta hafi Paulus Noa, forstjóri stofnunarinnar ACC sem berst gegn spillingu, staðfest.
„Rannsakendurnir og héraðssaksóknararnir frá Íslandi eru hér til að hitta kollega sína, fulltrúa ACC,“ sagði hann við The Namibian.
Markmiðið væri að finna sönnunargögn og tryggja að þeir aðilar sem tengdir eru Samherjamálinu séu sóttir til saka, óháð þjóðerni þeirra, innan lagaramma beggja landa.
„Í þeirra landi er þetta spillingarmál einnig glæpur og ef þeir finna sönnunargögn sem bendla þeirra eigin þegna við það, þá verða þeir sannarlega sóttir til saka,“ sagði Noa.
Namibíumenn sendu sjálfir sendinefnd til Íslands sumarið 2022. Með henni kom Netumbo Nandi-Ndaitwah, utanríkisráðherra og aðstoðarforsætisráðherra, og Martha Imalwa, ríkissaksóknari. Reyndi nefndin að þrýsta á íslensk stjórnvöld, meðal annars um að framselja þrjá fyrrverandi starfsmenn Samherja. Þetta voru Aðalsteinn Helgason, Egill Helgi Árnason og Ingvar Júlíusson.
Í frétt The Namibian kemur fram að Imalwa hafi ekki haft upplýsingar um ferðir íslensku útsendarana. Hafi hún bent á að ACC sæi um málið fyrir hönd namibískra stjórnvalda.
Hér á Íslandi hafa alls átta manns réttarstöðu sakbornings í málinu. Þar á meðal Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri og Arna McClure yfirlögfræðingur.
Fjórir eru sakaðir í Namibíu um að hafa tekið við meira en 300 milljónir Namibíudollara í mútugreiðslum fyrir kvóta frá íslenskum fyrirtækjum. Á meðal þeirra eru fyrrverandi ráðherrarnir Bernard Esau og Sacky Shanghala.