Þingmenn virðast vera misánægðir með Smiðju, nýja skrifstofubyggingu Alþingis, ef marka má umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.
Meðal þess sem þingmenn gagnrýna er að þeim er bannað að hengja upp myndir á veggi og þá mega þeir ekki hafa eigin húsgögn.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, þarf eins og aðrir þingmenn að sætta sig við sófa sem Alþingi leggur þeim til. Bergþór segir sófann þann óþægilegasta sem hannaður hefur verið enda glímir hann við bakverki.
Þá segir hann að þingflokkum sé grautað saman í húsinu og aðskilnaður þingflokka sé enginn þegar kemur að skrifstofunum. „Þetta er eins kalt og sálardrepandi og hægt er að hafa það,“ segir hann.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er almennt ánægð með nýju aðstöðuna en segir að það sé dálítið hljóðbært á milli skrifstofa.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, er allt annað en sáttur og efast um að hann muni nota sína skrifstofuaðstöðu mikið.
„Útsýnið úr minni skrifstofu er bara hvítur veggur, ég gæti eins verið lokaður inni á Litla-Hrauni,“ segir Eyjólfur við Morgunblaðið og bætir við að honum líði eins og hann sé í húsi sem var ekki hannað fyrir hann heldur fyrir arkitektinn.